Innlent

Fimmtíu manns missa vinnuna þegar Kumbaravogur lokar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kumbaravogi verður lokað í mars.
Kumbaravogi verður lokað í mars. vísir/eyþór
Stjórn stéttarfélagsins Bárunnar harmar þá stöðu sem komin er upp varðandi hjúkrunarheimilið á Kumbaravogi en eins og greint hefur verið frá mun heimilið loka í mars.

Við það missa fimmtíu manns vinnuna að því er fram kemur í tilkynningu frá Bárunni en þar segir jafnframt að virðingarleysið við heimilisfólkið sé „takmarkalaust“ og að það sé flutt „án nokkurs fyrirvara til dvalar á öðrum stöðum.“

„Í ljósi stöðunnar hlýtur að vera forgangsverkefni að flýta nýrri byggingu hjúkrunarheimilis í Árborg og skorar stjórn félagsins á stjórnvöld að öryggi þeirra  sem þurfa á þessari þjónustu að halda verði tryggt svo sómi verði að.

Einnig er það er alvarleg staða þegar einn af stærri vinnustöðum í sveitarfélaginu lokar og 50 manns missa vinnuna í einu vetfangi. Það eru 50 störf sem tapast í umönnun aldraðra, meirhlutinn  konur. Mikil óvissa ríkir um starfslok þeirra starfsmanna sem starfa á Kumbaravogi. Stjórn Bárunnar, stéttarfélags hvetur viðkomandi aðila sem bera ábyrgð á starfslokum og velferð starfsmanna að þeim verði sómi sýndur og farið eftir þeim reglum sem gilda á vinnumarkaði.

Stjórn Bárunnar, stéttarfélags hvetur yfirvöld í Árborg að leita allra leiða til þess að tryggja ný störf í sveitarfélaginu í stað þeirra sem þarna hafa tapast,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×