Innlent

Góð skilyrði á jöklinum þar sem ferðamaður féll ofan í sprungu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þyrla gæslunnar átti að lenda við Grímsvötn á Vatnajökli rétt fyrir klukkan 14.
Þyrla gæslunnar átti að lenda við Grímsvötn á Vatnajökli rétt fyrir klukkan 14. Loftmyndir
Þyrla Landhelgisgæslunnar er rétt um það bil að lenda við Grímsfjall á Vatnajökli þar sem erlendur ferðamaður féll niður í sprungu um hádegisbil í dag. Ferðafélagi mannsins náði að gera lögreglu viðvart í gengum neyðarsendi.

Fjórir björgunarsveitarmenn eru í þyrlu gæslunnar auk hefðbundinnar áhafnar sem telur fjóra auk læknis. Áætlað var að þyrlan myndi lenda á jöklinum rétt fyrir klukkan tvö. Ferðamennirnir voru á göngu á jöklinum, líklega á gönguskíðum en málið er á borði lögreglunnar á Suðurlandi.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að samband sé ágætt við ferðafélagann í gegnum neyðarsamband en ekkert talsamband. Gott veður mun vera á jöklinum að sögn ferðafélagsins, sól og bjart yfir. 

Uppfært klukkan 14:05

Þyrlan er lent á Vatnajökli og næst samband við manninn. Reiknað er með því að hann verði fluttur til Reykjavíkur með þyrlunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×