Innlent

Bjarni segir að svör sín hafi verið ónákvæm

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Vísir/Stefán
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að svör sín um hvenær ráðuneyti sínu hefði borist skýrsla um eignir Íslendinga á aflandssvæðum hafi verið ónákvæm. RÚV greinir frá.

Í fréttum RÚV í gær sagði Bjarni að skýrsla sem starfshópur á vegum ráðuneytisins gerði hafi borist ráðuneytinu eftir þingslit sem voru 13. október.

Ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur þó staðfest að skýrslunni var skilað 13. september. Engar efnislegar breytingar voru gerðar á skýrslunni frá því að henni var skilað í september.

„Þetta var kannski ekki alveg nákvæmt tímalína hjá mér eins og ég fór yfir þetta í gær,“ sagði Bjarni í samtali við RÚV.

Bjarni segir að hann hafi ekki séð skýrsluna fyrr en honum hafi verið kynnt skýrslan þann 5. október.

„Það sem ég átti við, og var í huga mér, var það að þegar þessi skýrsla er kynnt fyrir mér, sem er þarna já fyrstu vikuna í október, þá standa yfir samningar um þinglok og það er beðið eftir því, og reyndar krafa stjórnarandstöðunnar að við ættum að vera löngu farin heim, og sú hugsun mín að málið gæti fengið efnislega meðferð í þinginu var í raun og veru óraunhæf á þeim tíma.“

Hann biðst velvirðingar á því að hafa ekki farið með dagsetningar á nákvæmari hátt en telur þó að birting skýrslunnar fyrir kosningar hefði haft lítil áhrif.

„Í huga mínum í gær þá hugsaði ég með mér, mér leið eins og þingið hefði bara verið farið heim, en þetta var kannski ekki nákvæm tímalína hjá mér og ég biðst nú velvirðingar á því,“ sagði Bjarni í samtali við RÚV.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.