Innlent

Fundað á öllum vígstöðvum mögulegra stjórnarflokka

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Frá Valhöll í kvöld þar sem flokksráð Sjálfstæðisflokksins kemur saman.
Frá Valhöll í kvöld þar sem flokksráð Sjálfstæðisflokksins kemur saman. Vísir/Eyþór
Fundir mögulegra stjórnarflokka eru hafnir. Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hefur fundað frá klukkan 20 í Valhöll, stjórn Bjartrar framtíðar hóf fund sinn klukkan 19:30 í  Gerðubergi og ráðgjafaráð Viðreisnar fundar á skriftsofu sinni í Ármúla en fundur þeirra hófst einnig klukkan 20.

Verið er að ræða lokadrög stjórnarsáttmálans og fara yfir stöðu mála. Í kvöld mun því koma í ljós hvort sáttmálinn verði samþykktur eða honum hafnað af þessum stofnunum flokkanna.

Fundurinn í Valhöll er afar fjölmennur en um fjörutíu manns eru á fundi Bjartrar framtíðar.  Óljóst er hversu langir fundirnir verða en búast má við að þeir standi í allt að einn og hálfan tíma að minnsta kosti.

Stjórnarkreppa hefur ríkt í landinu undanfarna mánuði en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fékk umboð til stjórnarmyndunarviðræðna í annað sinn daginn fyrir gamlársdag. Þetta er í þriðja skiptið sem flokkarnir þrír hefja viðræður. Það ætti að koma í ljós seinna í kvöld hvort ný ríkisstjórn verði kynnt í vikunni.

Vísir greindi frá því fyrr í kvöld að óvíst væri hvort að Björt framtíð myndi samþykkja stjórnarsáttmálann þar sem nokkurrar óánægju gætir innan flokksins vegna atburðarrásar liðinna daga í tengslum við skýrslu um eignir Íslendinga í skattaskjólum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×