„Mér finnst ljóð vera málefnaleg og þau gefa mér klárlega eitthvað sem ég fæ hvergi annars staðar. Ég finn fyrir ákveðinni tegund af gleði við að skrifa þau,“ segir Jónas Reynir sem tók við verðlaunum úr hendi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í Höfða. Verðlaunin nema 700 þúsund krónum og þau hlaut Jónas Reynir fyrir ljóðahandritið Stór olíuskip. Fyrstu eintök af bókinni komu líka úr prentun í gær í útgáfu bókaforlagsins Partusar.

„Það var ekki fyrr en ég byrjaði á námskeiði hjá Sigurði Pálssyni skáldi sem ég byrjaði að yrkja. Svo ég hef ekki verið lengi að,“ segir hann. Í þakkarræðu sinni í Höfða í gær las hann upp tölvupósta sem hann hafði sent Sigurði gegnum árin í fylgd með verkefnalausnum. Allir voru þeir stuttir og lítt skáldlegir, á borð við: „Verkefni 5, b.kv. JRG,“ þar til sá síðasti flaug í september: „Til þín elsku SP með þökk fyrir ljóðlistina.“
Fimmtíu og eitt handrit að ljóðabók barst til dómnefndar sem Úlfhildur Dagsdóttir, Þórarinn Eldjárn og Illugi Gunnarsson skipuðu.
Úlfhildur var formaður nefndarinnar. Hún segir öll handrit hafa eitthvað til síns ágætis og valið sé því alltaf vandasamt. Kvaðst hafa séð nýlega útkomna ljóðabók Jónasar Reynis, Leiðarvísir um þorp, og kannast við efnið því það handrit hafi orðið í 2. sæti keppninnar í fyrra.