Lífið

Kött Grá Pje segir skilið við rappið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kött Grá Pje er listamannsnafn Atla Steinþórssonar.
Kött Grá Pje er listamannsnafn Atla Steinþórssonar. Vísir/Stefán
Skáldið, rithöfundurinn og rapparinn Kött Grá Pje hefur sagt skilið við rappheiminn, að minnsta kosti í bili. Þetta staðfestirAtli Sigþórsson, öðru nafni Kött Grá Pje, í samtal við Vísi. Hann tilkynnti um ákvörðun sína á samfélagsmiðlum í dag.

Í samtali við Vísi segir Atli að hann hafi lengi velt því fyrir sér að hætta í rappinu.

„Ég var búinn að vera að velta þessu fyrir mér og þetta varð ofan á, að þetta væri málið,“ segir Atli sem staddur er í fríi í Madríd á Spáni. Hann ætlar nú að einbeita sér að öðrum hliðum listarinnar.

„Já, ég ætla bara að skrifa, skrifa bækur. Ég er búinn að klára handrit að bók sem á að koma út núna í haust hjá Bjarti.“

Kött Grá Pje hefur getið sér gott orð í íslenskum tónlistarheimi síðustu misserin. Hann sló fyrst í gegn árið 2013 með reggílaginu Aheybaró og hefur komið víða við í rappsenunni síðan. Þá gaf hann út ljóðabókina Perurnar í íbúðinni minni á síðasta ári. Hann segist enn fremur sáttur við ákvörðun sína um að leggja rappið á hilluna og að nú taki skriftirnar við.

„Já, skriftirnar eru það sem á hug minn allan núna, þannig að þetta var orðið aukaatriði.“

Aðspurður hvort hann sjái fram á að byrja aftur að rappa einhvern tímann í framtíðinni segist Atli vel geta hugsað sér það.

„En í bili fannst mér kominn tími til að hætta þessu kjaftæði og skrifa bara,“ segir skáldið, rithöfundurinn og fyrrum rapparinn Kött Grá Pje.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×