Chan var í Singapore í gær að kynna myndina þar sem hann sagðist hafa þurft að leita til læknis vegna verkjar í fætinum en eftir skoðun var ákveðið að senda hann í aðgerð. Hann flaug svo til Íslands skömmu síðar. „Ég hefði geta stöðvað framleiðsluna til að jafna mig. En eftir að hafa ferðast til Íslands ákvað ég að gera þetta sjálfur. Þetta var svo stór mynd að ég gat ekki látið allt fólkið bíða bara eftir mér,“ sagði Chan á blaðamannafundi.
Tökur á myndinni fóru meðal annars fram í Skaftafelli og við Svínafellsjökul og þurfti Chan að leika í ísköldu vatni samkvæmt frásögn hans. „Ég þurfti að stinga mér ofan í ískalt vatn í tíu stiga frosti,“ sagði hasarhetjan. Í myndinni leikur hann kínverskan fornleifafræðing að nafni Jack sem reynir að finna týndan fjársjóð Magadha-veldisins ásamt indverska prófessornum Ashmita og aðstoðarmanninum Kyra. Amyra Dastur og Disha Patani leika aðalhlutverkin. Myndin verður frumsýnd um helgina í Singapore.
Sjá má Ísland í athyglisverðri stiklu úr Kung Fu Yoga hér að neðan.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu