Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag en þar segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sárt að horfa upp á það hve margir eru að vinna á frídegi verslunarmanna en ættu að vera í fríi. Margrét Sanders, formaður Samtak verslunar og þjónustu, segir þetta hafa verið hluta af eðlilegri þróun að verslunarmenn hafi opið á þessum degi og finnst hugmynd formanns VR ekki góð.
„Persónulega held ég að þetta sé algjörlega óraunhæft. Þetta er mikill ferðadagur, hvar ætlarðu að setja mörkin? Eru það bara verslanir eða sjoppur líka? Bensínstöðvar - þær eru orðnar mikið til sjálfvirkar en það er það sama,“ segir Margrét.
Formaður VR vill reyna að finna einhverjar lausnir svo verslunarfólk fái eitthvert frí og einhverja hvíld gegn vinnu á þessum degi. Hann segist ætla að reyna að koma með hugmyndir í þá áttina fyrir næstu kjarasamninga. Margrét segir að skoða þurfi alla frídaga í heild sinni.
Sjá einnig: Vill að verslunarmenn hætti að vinna á frídegi

Formaður VR segir í Fréttablaðinu í morgun það vera skyldu VR að leita allra leiða til að fara aftur í grunninn og reyna að koma með hugmyndir fyrir næstu kjarasamninga, fyrst og fremst til þess að tryggja að fólk fái sitt frí, annaðhvort mánudaginn eftir eða sem viðbót við aðra orlofsdaga. Margrét segir að gera þurfi heildarbreytingu á frídögum.
„Þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem ég hef heyrt að þetta sé vandamál, það er það alls ekki. Ég held að það sé miklu meira vandamál að við séum ekki með nægjanlega mikinn sveigjanleika fyrir fólkið okkar, varðandi vinnutíma og fleira. Ég nefni stundum í þessu samhengi að skólarnir byrjuðu og enduðu miðað við rollurnar og við köllum þetta rolludagatal. Þetta er svipað með frídaga að við erum svo föst í einhverjum formum að við ættum að horfa á breytingarnar sem heild,“ segir Margrét Sanders, formaður SVÞ.