Innlent

Segir ummæli Sveinbjargar um "sokkinn kostnað“ ekki vera í samræmi við stefnu Framsóknar og flugvallarvina

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir segir marga hafa haft samband við sig vegna ummæla Sveinbjargar og segir þá vera ósammála þeim.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir segir marga hafa haft samband við sig vegna ummæla Sveinbjargar og segir þá vera ósammála þeim. Vísir/Stefán
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir hefur þurft að sæta gagnrýni vegna ummæla sinna um að börn hælisleitanda séu sokkinn kostnaður fyrir skólakerfið og betra væri að stofna sérskóla fyrir þau börn.

Pistill Loga Bergmanns, fréttamanns á Stöð tvö, hefur verið vinsæll í dag en þar ræðir hann um ummæli Sveinbjargar og gagnrýnir þau harðlega. Meðal þeirra sem líkar við pistil Loga er Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, annar borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.

„Ég er algjörlega ósammála þessum ummælum hennar og sammála því sem Logi segir að kjörnir fulltrúar eigi ekki að tala með þessum hætti og það á ekki að tala um sokkinn kostnað þegar verið er að aðstoða börn. Þetta er ekki skoðun mín og  þetta er ekki skoðun eða stefna Framsóknar og flugvallarvina heldur er þetta skoðun Sveinbjargar Birnu, persónulega,“ segir Guðfinna Jóhanna í samtali við Vísi.

Þetta hefur ekki verið rætt innan Framsóknar og flugvallarvina að sögn Guðfinnu Jóhönnu. Hún segir að aðilar innan flokksins hafi haft samband við sig.

„Það hafa ansi margir haft samband við mig úr flokknum og þeir sem hafa haft samband eru mjög ósammála þessum ummælum hennar,“ segir Guðfinna og nefnir að hún hafi ekkert rætt um þetta við Sveinbjörgu. Hún nefnir að hún hafi aldrei heyrt Sveinbjörgu minnast á þetta áður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×