„Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að lítil fjögurra sæta flugvél yrði fyrir valinu og útsýnisflugi sinnt. Fljótlega varð ljóst að sú mikla vinna sem fer í stofnun flugfélags ætti með réttu að nýtast öflugri flugrekstri og leggur félagið nú upp með áætlanir um kaup á eins-hreyfils skrúfuþotu af gerðinni Cessna Grand Caravan EX,“ segir í erindi framkvæmdastjóra Flugfélags Austurlands, Kára Kárasonar, til bæjaryfirvalda í Fljótsdalshéraði.
Kári segir í bréfinu að þar sem Flugfélag Austurlands þurfi öfluga flugvél vilji félagið kanna áhuga hagsmunaaðila á svæðinu á því að festa kaup á fyrrgreindri Cessna-vél sem taki níu farþega. Ekkert útsýnisflug sé á Austurlandi þótt fjórðungurinn bjóði upp á gríðarlega víðfeðmt og fallegt landsvæði. Ferðamannastraumur hafi náð nýjum hæðum, nýta þurfi fleiri gáttir inn í landið og ferðaþjónustan að dreifast betur.

Kári kveðst hafa reynsluflogið áðurnefndri gerð af skrúfuþotu hér á landi. Fullkomin mælitæki vari flugmann við ef flughæð er ekki nægileg. „Reynsluflugið gekk mjög vel, vélin var prófuð í ísingarskilyrðum, ókyrrð og miklum vindi eins og gengur og gerist á Íslandi og leysti verk sitt af hendi með ágætum,“ lýsir Kári.
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs kveðst fagna frumkvæðinu. Í því geti falist fjölmörg tækifæri, jafnvel til innanlandsflugs bæði innan fjórðungs og utan. Sveitarfélagið telji sér þó ekki fært að leggja fjármuni í verkefnið að sinni.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. maí
