Innlent

Göngumanni bjargað úr sjálfheldu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út eftir að neyðarboð barst stjórnstöð gæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út eftir að neyðarboð barst stjórnstöð gæslunnar. Vísir/Daníel
Áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, kom göngumanni til bjargar fyrr í dag eftir að Landhelgisgæslunni bárust boð úr neyðarsendi. Maðurinn reyndist vera fastur á eyri út í á í grennd við Þórisvatn.

Neyðarkallið barst klukkan 9.47 frá breskum neyðarsendi sem skráður var á einstakling. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar gerði þá þegar lögreglu og landsstjórn björgunarsveita viðvart um málið.

Einnig hafði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar umsvifalaust samband við Björgunarmiðstöðina í Bretlandi til að afla frekari upplýsinga um sendinn. Kom þá í ljós að þótt sendirinn væri skráður í Bretlandi var hann í eigu þýskrar konu. Hins vegar var ekki vitað hvort margir væru í hættu eða hvers konar hættu.

Rétt um hálfellefu tilkynnti landsstjórn björgunarsveita að staðurinn væri að öllum líkindum í vaði úti í á fyrir norðan Þórisvatn í Stóraverskvísl. Þegar það lá fyrir var óttast um að jafnvel fleiri en einn væri í neyð og mögulega að bíll væri fastur í vaði.

Meðal þeirra upplýsinga sem bárust frá Björgunarmiðstöðinni í Bretlandi var símanúmer handhafa sendisins. Lögreglan náði sambandi við eigandann og kom þá í ljós að sendirinn væri nú í höndum sonar eigandans. Allt væri í lagi með hann en hann væri hins vegar fastur á eyri úti í á.

Var þá ákveðið að snúa TF-SYN, þyrlu Landhelgisgæslunnar til baka en TF-LIF kom manninum til aðstoðar en hann hafði verið á göngu frá Ásbyrgi á leið yfir í Skóga. Var þyrlan komin á vettvang rúmlega ellefu og kom manninum á fast land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×