Myndbandið má sjá hér fyrir ofan.
Það verður líka fyrsta plata sveitarinnar með nýju efni sem rappararnir Höskuldur Ólafsson og Egill „Tiny“ Thorarensen rappa saman á. Tiny gekk einmitt til liðs við sveitina árið 2003 eftir að Hössi hætti.
Líklegast verða fimm ný lög á nýju Quarashi plötunni en hún er í vinnslu sem stendur. Búist er við því að hún komi út einhvern tímann á þessu ári.

„Myndbandið er tilvísun í kvikmyndina Wolf of Wall Street. Hugmyndin var að taka nokkur atriði úr þeirri mynd og gera að okkar eigin. Myndbandið er tekið upp á nokkrum tökustöðum og það tók þrjá daga að skjóta það.“
Myndbandið er allt í svart/hvítu og á meðal tökustaða var þak turnsins í Borgartúni.
„Flest atriðin hans Hössa eru skotin þar. Hann var hætt kominn. Hann þurfti að stíga alveg upp á brúnina og var í eitt skiptið kominn nálægt því að detta niður eftir óvænta vindhviðu. Menn fengu hnút í magann en hann var sallarólegur yfir þessu, enda með stáltaugar,“ segir félagi hans Steinar Fjeldsted rappari sem hefur verið með sveitinni frá fyrsta degi.
Það voru þeir Samúel Bjarki Pétursson og Gunnar Páll Ólafsson hjá framleiðslufyrirtækinu Skot sem áttu hugmyndina en þeir leikstýra einnig myndbandinu. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þeir vinna með hljómsveitinni því þeir gerðu einnig myndbandið Race City árið 2003.