Frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um búvörusamninga þarfnast gagngerrar endurskoðunar í því skyni að tryggja almannahagsmuni. Þetta kemur fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvarpið til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum.
Er það mat eftirlitsins að frumvarpið muni að óbreyttu skaða bæði hagsmuni neytenda og bænda.
Segir í umsögninni að ekki sé farið eftir tilmælum Samkeppniseftirlitsins um að fella þær undanþágur sem afurðastöðvum í mjólkuriðnaði eru veittar með setningu laga nr. 85/2004 frá banni samkeppnislaga við tilteknu samkeppnishamlandi samráði keppinauta og hins vegar girt fyrir að Samkeppniseftirlitið gæti haft afskipti af samkeppnishamlandi samruna afurðastöðva í mjólkuriðnaði.
„Raunar virðist ljóst að frumvarpið, verði það að lögum, kemur í veg fyrir eða takmarkar beitingu banns á misnotkun á markaðsráðandi stöðu gagnvart afurðastöðvum í mjólkuriðnaði. Verður þá stigið enn stærra skref í að undir þiggja mjólkuriðnaðinn samkeppnislögum. Þá virðast þær sérreglur sem settar eru um markaðsráðandi afurðarstöðvar skapa keppinautum og neytendum almennt minni vernd heldur en núgildandi lög,“ segir í umsögninni.
Frumvarpið er sagt fela í sér grundvallarbreytingu á verðlagningarkerfi búvörulaga. Segir Samkeppniseftirlitið að ólíkt fyrri breytingum á búvörulögum sé á engan hátt útskýrt í frumvarpinu hvernig hagsmuna almennings verði gætt á þessu sviði og hvernig frumvarpshöfundar sjái fyrir sér samspil búvörulaga og samkeppnislaga í breyttu umhverfi.
Telur Samkeppniseftirlitið að ef frumvarpið verði að óbreyttu að lögum muni það að þessu leyti skapa réttaróvissu og skaða almannahagsmuni. Þá segir Samkeppniseftirlitið frumvarpið koma í veg fyrir eða takmarka beitingu banns við misnotkun á markaðsráðandi stöðu gagnvart afurðastöðvum í mjólkuriðnaði. Jafnframt er það sagt kom í veg fyrir að minni vinnslu- og afurðastöðvar eflist og dafni.
Hægt er að lesa umsögnina í heild hér.
