Innlent

Svona lætur hann drekann spúa eldi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ógurlegur dreki, sem meira að segja spýr eldi, mætir nú sjófarendum á Raufarhöfn, ekki sem ógnvaldur heldur sem einn af landvættum Íslands. Drekinn var sýndur í fréttum Stöðvar 2 og rætt við listamanninn, Helga Ólafsson, rafvirkja á Raufarhöfn. 

Eldspúandi drekar finnast yfirleitt aðeins í ævintýrum. Á Raufarhöfn er þó einn sem heilsar sæfarendum. Sjómennirnir á heimabátunum vita orðið hverju við má búast en mönnum á aðkomubátum gæti brugðið þegar þeir sjá hann allt í einu: Já, þetta er dreki á hafnargarðinum og það eldspúandi, þó ekki af holdi og blóði heldur úr málmi. 

„Þetta er búið að brjótast í mér í mörg ár, með eitthvert svona útilistaverk, ef hægt er að kalla þetta listaverk. En svo þegar upplýst var að við værum á drekasvæðinu, þá kom hugmyndin að búa til dreka, og helst að láta hann spúa eldi,“ segir Helgi.

Helgi Ólafsson á Raufarhöfn, höfundur drekans.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson
Helgi var þó ekki að hugsa um olíuleitarsvæði heldur drekann í skjaldamerki Íslands, sem er einn af landvættunum. Drekinn er því verndari Raufarhafnar.

Helgi segist ekki hafa verið einn að verki. Barnabarn hans hafi tölvuteiknað drekann og kunningi hans hjá vélsmiðjunni Héðni skorið hann út. 

„Sonur minn og mágur hjálpuðu mér að sjóða þetta saman. Ég er ekki einn í því að hafa gert þetta,“ segir Helgi. 

Eflaust nýtur drekinn sín betur í myrkri heldur en nú yfir hásumarið þegar bjart er allan sólarhringinn. En hver er tæknin á bak við eldinn? 

„Þetta er dísilolía, - úr gömlu brennslutæki sem ég hirti einhversstaðar frá.“ 

Eftir að búið er að ýta á takka getur Drekinn logað sjálfvirkt allan daginn en hann á það til að slá út vegna hitans.

„Ég er með þetta á tímaleiða. Eins og þið sáuð þá slökknar svolitla stund og kviknar svo  aftur. Þetta er bara eins og var í miðstöðvarkötlum í gamla daga. Þegar kom straumur á þá dælist olían upp í spíss og háspennukefli kveikir neistann. Þetta er ósköp einfalt,“ segir Helgi Ólafsson á Raufarhöfn.

Stærð drekans má sjá í samanburði við mennina sem eru að huga að honum.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.