Innlent

Hjálmar: Samgöngukerfið ekki til að koma „þessum járnhylkjum sem heita bílar á milli staða“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir hugmyndir um að fjölga mislægum gatnamótum í borginni ekki eiga eftir að leysa neinn vanda, miklu heldur færa vandann annað. Hann vill frekar leggja áherslu á að bæta almenningssamgöngur og segir mikilvægt að fækka bílum í umferðinni.

„Ef við gerum fleiri og fleiri mislæg gatnamót, sem eru gríðarlega kostnaðarsöm – erum að tala um marga milljarða, þá þarf maður í fyrsta lagi að spyrja: Og hvað svo? Hvað þegar bílarnir koma að næstu gatnamótum? Þarf ekki að gera mislæg gatnamót þar líka?“ sagði Hjálmar í Bítinu í morgun.

Ekki lausnin að fjölga akreinum

Hjálmar segir vegakerfið í borginni afar illa nýtt, það sjáist best á morgnanna og síðdegis. „Maður þarf ekki annað en að sjá umferðina á morgnanna. [...] Þar sést að akreinarnar sem fara í vestur, þær eru þrjár eða fjórar, eru troðfullar. Ekki einn einasti bíll á austurleið. Það sýnir í fyrsta lagi hversu illa þetta vegakerfi er nýtt,“ segir hann. Lausnin sé því ekki sú að fjölga akreinum.

„Reynsla annarra borga sýnir það að ef þú bætir sífellt við nýjum akreinum að þá fyllast þær bara eftir svona fimm ár. Við þurfum að taka mark á þeirri reynslu. Þetta er ekki okkar uppfinning. Þannig er þetta bara.“

Breyta þurfi ferðavenjum

Hann segir að möguleg lausn sé að breyta ferðavenjum einhvers hluta borgarbúa þannig að þeir annars vegar nýti sér almenningssamgöngur og hins vegar að fólk leggi af stað í og úr vinnu á öðrum tíma dags en aðrir.

„Fyrirtæki geti til dæmis umbunað starfsmönnum sínum og sagt: Ef þið komið hálftíma fyrr þá losnið þið við umferðina og getið þá hætt hálftíma fyrr. Það er hægt að gera alls skyns slíkar aðferðir sem eru ekki mjög kostnaðarsamar.“

Hjálmar tók fram að of margir bílar væru í umferðinni, sem skapi mengun og önnur vandamál. Því þurfi að fækka þeim en að það eigi að vera hægt með bættum almenningssamgöngum.

„Til hvers höfum við samgöngukerfi? Það er til að koma fólki og vörum á milli staða. Það er ekki til þess að koma þessum járnhylkjum sem heita bílar á milli staða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×