Innlent

Stærstu skotterturnar hverfa úr hillunum

Ásgeir Erlendsson skrifar
Öflugustu skottertur björgunarsveitanna verða seldar í síðasta sinn fyrir þessi áramót vegna breytinga á reglum um skotelda sem taka gildi snemma á næsta ári. Flugeldastjóri hjá björgunarsveitunum er með tárin í augunum vegna þessa. 

Á Íslandi hafa öflugri flugeldar verið leyfðir til sölu til almennings en í nágrannalöndunum. Undanfarin ár hefur verið unnið að því að samræma íslensk lög og reglur reglum Evrópusambandsins. Veittur var frestur til 15. janúar næstkomandi til að innleiða tilskipun sem setur styrkleika skotterta skorður og eftir að hún tekur gildi verður ekki lengur hægt að kaupa öflugustu terturnar sem seldar hafa verið hér á landi undanfarin ár.

Guðmundur Einarsson, flugeldastjóri hjá Hjálparsveit skáta í Kópavogi er leiður yfir því að terturturnar hverfi úr hillunum.

„Ég er nú bara með tárin í augunum liggur við og á eftir að sakna þess að geta ekki verið með stórar og flottar tertur í garðinum heima.“

Hann segir eitthvað annað skemmtilegt koma í staðinn.

„Við höfum áður misst góðar vörur út, tívolíbombur sem dæmi. Við fundum eitthvað í staðinn sem var gott. Almenningur kunni að meta það.“

Björgunarsveitirnar hafa unnið nótt og dag í desember og vinnan nær hámarki í kvöld enda þurfa allir sölustaðir að vera tilbúnir fyrir opnun í fyrramálið.

„Ég held að það verði glimrandi sala. Það er góð veðurspá fyrir gamlárskvöld. Ég held að það verði góð sala.“ Segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×