Innlent

Eyjólfur verður áfram á Íslandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eyjólfur ásamt móður sinni Elvu Christinu.
Eyjólfur ásamt móður sinni Elvu Christinu. vísir/anton brink
Brottflutningur hins fimm ára gamla Eyjólfs Kristins Elvusonar frá Íslandi til Noregs hefur verið sleginn útaf borðinu. Frá þessu greinir DV. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofunnar, sagðist í samtali við Vísi ekki geta borið þær fregnir til baka en vildi ekki tjá sig nánar um málið og vísaði á aðstandendur.

Málið hefur verið til umfjöllunar undanfarna mánuði eftir að móðuramma drengsins, Helena Brynjólfsdóttir, flúði til Íslands með drenginn þegar stefndi í að honum yrði komið í varanlegt fóstur ytra. Norska barnaverndarnefndin hafði gripið inn í þar sem móðir drengsins, Elva Christina Hafnadóttir, hafði leiðst út í óreglu.

Síðan hafa mægðurnar barist við nefndina fyrir dómstólum en töpuðu því máli. Því máli var síðan áfrýjað og er einn fjölmargra þátta sem hafa, samkvæmt heimildum Vísis, flækt málin verulega við samvinnu norskra og íslenskra barnayfirvalda við leit að lausn í málinu.

Þá hefur faðir drengsins, Sigurjón Elías Atlason, farið fram á forræði yfir drengnum en óskað hafði verið eftir því að aðstæður hjá honum yrðu kannaðar til hlítar af barnayfirvöldum. 

Ekki liggur fyrir hvort Eyjólfi verði komið í fóstur hérlendis eða hvort foreldrar komi að uppeldi hans. Ljóst er að lög og reglur eru rýmri hér á landi en í Noregi þegar kemur að barnaverndarmálum. Málin ættu að skýrast á næstu vikum.


Tengdar fréttir

Reyna allt svo Eyjólfur verði ekki sendur burt

Íslensk barnaverndaryfirvöld reyna nú að ná samningum við norsk yfirvöld svo íslenski drengurinn Eyjólfur Kristinn Elvuson verði ekki sendur til Noregs á fósturheimili.

Viðtal við Elvu Christinu: „Þetta er að brjóta mig niður“

Elva Christina, segir það vera skelfilega tilfinningu að norsk barnaverndaryfirvöld geti krafist þess að fá barnið hennar sent til Noregs í fóstur. Elva sem áður var í neyslu segist hafa snúið við blaðinu og vonar að hún fái að hafa drenginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×