Innlent

Kennarar við Hagaskóla hætta innleiðingu nýrrar aðalnámskrár

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kennarar mættu á borgarstjórnarfund í Hagaskóla í seinustu viku eftir samstöðufund þeirra í Háskólabíó vegna kjaradeilunnar.
Kennarar mættu á borgarstjórnarfund í Hagaskóla í seinustu viku eftir samstöðufund þeirra í Háskólabíó vegna kjaradeilunnar. vísir/ernir
Kennarar við Hagaskóla hafa ákveðið að hætta frekari innleiðingu nýrrar aðalnámskrár grunnskóla og ekki hefja vinnu við hana aftur fyrr en samningar nást um kaup og kjör kennara.

Eins og fjallað hefur verið um standa grunnskólakennarar nú í kjaradeilu við Samband íslenskra sveitarfélaga en kennarar hafa á þessu ári fellt tvo kjarasamninga. Kjaradeilan er nú á borði ríkissáttasemjara en mikil ólga er meðal kennara en þó nokkrir þeirra hafa sagt upp störfum. Þá gengu kennarar út úr grunnskólum klukkan 13:30 í dag og fyrir viku fjölmenntu þeir á samstöðufund í Háskólabíó.

Í ályktun sem kennarar í Hagaskóla samþykktu í liðinni viku eftir kennarafund undir stjórn trúnaðarmanns er greint frá ákvörðun um að hætta frekari innleiðingu nýrrar aðalnámskrár. Þá segir jafnframt:

„Grunnskólakennurum hefur verið gert skylt að taka að sér innleiðingu nýrrar aðalnámskrár. Þessi innleiðing kallar á gríðarlega endurskoðun á námsmati og kennslu og ætlast er til að kennarar sinni þessari vinnu án þess að fá til þess nægan tíma eða fjármagn.

Aðalstarf kennara á að felast í kennslu, undirbúningi hennar og úrvinnslu. Síaukin verkefni sem lögð hafa verið á herðar kennara hafa dregið úr möguleika þeirra til að sinna aðalstarfi sínu nægilega vel. Innleiðing nýrrar aðalnámskrár hefur ekki aðeins lagt aukið álag á nú þegar störfum hlaðna kennara heldur einnig dregið enn frekar úr tækifærum þeirra til að sinna nemendum sínum af fullum krafti.

Með því að stöðva innleiðingu nýrrar aðalnámskrár vilja kennarar við Hagaskóla mótmæla óþarflega miklu vinnuálagi og vanhugsaðri innleiðingu aðalnámskrárinnar. Jafnframt vilja þeir fá til baka eitthvað af löngu glötuðum tíma til að sinna kennslu en fyrst og fremst þrýsta á bæði sveitarfélög og ríki að semja sem allra fyrst.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×