Innlent

Björn Ingi eignast tímaritaútgáfuna Birting

Jakob Bjarnar skrifar
Stutt er síðan Björn Ingi keypti ÍNN og nú hefur hann keypt tímaritaútgáfuna Birting.
Stutt er síðan Björn Ingi keypti ÍNN og nú hefur hann keypt tímaritaútgáfuna Birting.
Fjölmiðlafyrirtækið Pressan hefur keypt tímaritaútgáfuna Birting. Samkomulag hefur náðst um kaup milli þeirra Björns Inga Hrafnssonar, helsta eiganda Birtings, Hrein Loftsson.

Vitað var að Hreinn hefur lengi haft hug á því að selja en Björn Ingi hefur verið duglegur við að kaupa ýmis fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði. Ekkert er langt um liðið síðan hann náði samkomulagi við Ingva Hrafn Jónsson um kaup á sjónvarpsstöðinni ÍNN.

Nánar tiltekið þá er að ræða alla hluti í Birtingi útgáfufélagi ehf. og þá af SMD ehf., Prospectus ehf. og Karli Steinari Óskarssyni. Til stendur að Birtingur útgáfufélag ehf. verður sjálfstætt dótturfélag Pressunnar ehf. og heldur áfram núverandi starfsemi sinni í óbreyttri mynd. Í það minnsta fyrst um sinn.

Flaggskip Birtings hafa verið tímaritin Gestgjafinn og svo samkvæmistímaritið Séð og heyrt. Samkvæmt heimildum Vísis er Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir ritstjóri þar á bæ á síðustu metrunum og á aðeins eftir að stýra tveimur tölublöðum.

Uppfært 10:20

Nú rétt í þessu var að berast tilkynning um kaupin og þar segir meðal annars að gert sé ráð' fyrir því að sameiginleg velta Pressunnar og tengdra félaga árið 2017 verði um tveir milljarðar króna. Starfsfólk samstæðunnar verður vel á annan hundrað, en starfsstöðvar eru í Kringlunni, Garðabæ, Ármúla og Skeifunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×