Innlent

71 prósent kennara við Njarðvíkurskóla hefur sagt upp störfum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Kennarar fjölmenntu í Hagaskóla eftir samstöðufund í Háskólabíói fyrr í mánuðinum en borgarstjórnarfundur fór fram í skólanum.
Kennarar fjölmenntu í Hagaskóla eftir samstöðufund í Háskólabíói fyrr í mánuðinum en borgarstjórnarfundur fór fram í skólanum. Vísir/Ernir
20 kennarar hafa nú sagt upp störfum við Njarðvíkurskóla. 28 grunnskólakennarar starfa við skóla og því hafa 71 prósent kennaramenntaðra starfsmanna við skólann sagt upp. Áætluð starfsflok kennaranna eru 28. febrúar 2017.

Steindór Gunnarsson, kennari við Njarðvíkurskóla, segir kennarana vera í mjög erfiðri stöðu.

„Þetta eru erfið spor sem kennarar eru að stíga en okkur finnst þetta vera orðið tímapunktur til að tjá okkur af fullum krafti. Því að þetta er bara mjög alvarlegt ástand og yfirlýsing bæði frá ASÍ og eins frá sambandi sveitarfélaga var ekki til að bæta það,“ segir Steindór í samtali við Vísi.

Samband íslenskra sveitarfélaga sendi frá sér tilkynningu á miðvikudagskvöld þar sem meðal annars var bent á að launaþróun kennara hafi haldist í hendur við þróun á almennum og opinberum markaði á undanförnum árum. Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara gagnrýndi framsetninguna og sagði hana einfaldlega ranga.

„Það vildu náttúrulega flestallir bíða eftir því hvað væri að koma frá samninganefndinni en við héldum nú að það ætti að ríkja trúnaður milli sambands sveitarfélaga og viðsemjenda og það virðist ekki vera. Hljóðið í þeim var ekki gott og gaf okkur náttúrulega bara vísbendingu um það hvað er á leiðinni. Þannig að það er mjög þungt hljóð í kennurum og hér á Suðurnesjum er atvinnuástand mjög gott í fyrsta skipti í langan tíma. Fólk er að íhuga að yfirgefa stéttina og finna sér eitthvað annað að gera,“ segir Steindór.


Tengdar fréttir

Fleiri kennarar munu segja upp störfum

"Mér skilst að fleiri uppsagnir séu á döfinni, núna á föstudag,“ segir Ragnar Þór Pétursson, trúnaðarmaður kennara í Norðlingaskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×