Innlent

Fleiri kennarar munu segja upp störfum

Þorgeir Helgason skrifar
Ragnar Þór Pétursson kennari.
Ragnar Þór Pétursson kennari. vísir/gva
„Mér skilst að fleiri uppsagnir séu á döfinni, núna á föstudag,“ segir Ragnar Þór Pétursson, trúnaðarmaður kennara í Norðlingaskóla. Um það bil 70 kennarar hafa lagt inn uppsagnarbréf á síðustu dögum. Þar á meðal sögðu 30 kennarar upp störfum sínum í gær. Ragnar Þór er einn þeirra kennara sem sögðu upp í gær.

Samninganefndir Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa fundað hjá ríkissáttasemjara í um tíu daga. Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segist vera bjartsýnn á að samkomulag náist. „Við værum ekki að þessu nema við teldum að við gætum samið,“ segir Ólafur.

„Ástæða þess að kennarar eru að segja upp í hrönnum núna er að menn ætla sér ekki að glíma við ástandið ef samningurinn verður felldur af kennurunum. Menn eru ekki tilbúnir í verkfallsátök, bæði vegna þess að þeir hafa enga trú á að það komi neitt út úr því og svo líka af þeirri ástæðu að þeir hafa einfaldlega ekki efni á því,“ segir Ragnar Þór.

Boðað hefur verið til fundar í dag hjá ríkissáttasemjara en fundum helgarinnar lauk án árangurs. Samið er í þriðja sinn en grunnskólakennarar hafa nú þegar hafnað tveimur kjarasamningum. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×