Innlent

Skortur á skurðhjúkrunarfræðingum veldur lokun á skurðstofu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Samtals þarf áttatíu skurðhjúkrunarfræðinga til að manna skurðdeildir Landspítalans en það vantar þrettán til starfa eða fimmtán prósent stöðugilda.

Alma Möller, læknir og framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala, segir mismunandi eftir deildum hversu mikið manneklan bitnar á starfseminni.

„Á flestum einingum hefur tekist að halda viðunandi starfsemi með því að þeir sem fyrir eru, vinna meira. En á kvennadeild hefur þurft að loka einni skurðstofu af þremur, mest allt þetta ár. En það stendur til bóta og við vonumst til að opna þriðju stofuna að hluta í desember og að fullu eftir áramót,“ segir Alma.

Á kvennadeildina vantar fimm skurðhjúkrunarfræðinga eða um það bil þriðjung stöðugilda. Manneklan ásamt bið eftir skoðun hjá læknum deildarinnar hefur valdið því að þrjú hundruð konur bíða eftir að komast í grindarbotnsaðgerð og biðin er allt að þrjú ár.

Alma Möller, læknir og framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítalansvísir/skjáskot
Alma bendir á að biðlistar við Landspítalann séu afleiðing margra ára uppsöfnunar vegna langvarandi manneklu og verkfalla.

Skortur á skurðhjúkrunarfræðingum hafi einnig verið fyrirsjáanlegur um lengri tíma, enda stéttin að eldast og margir að fara á eftirlaun á næstu árum. Þrátt fyrir allt hafi bið eftir grindarbotnsaðgerðum styst um tólf mánuði síðasta árið og framundan séu bjartari tímar.

„Við byrjuðum að bregðast við þessu haustið 2014 með því að gefa í varðandi sérmenntun skurðhjúkrunarfræðinga. Svo erum við að skoða að auglýsa erlendis eftir starfskröftum og kvensjúkdómalæknar hafa farið í samstarf við sjúkrahúsið á Akranesi og eru að fara að gera aðgerðir þar einn dag í viku, til að byrja með.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.