Innlent

„Ímyndið ykkur hvað hægt er að gera fyrir þúsund krónur“

Samúel Karl Ólason skrifar
„Ímyndið ykkur hvað hægt er að gera fyrir þúsund krónur,“ segir Patrick Rose, hjá UNICEF í Vestur- og Mið-Afríku. Þar eru nú fjöldi vannærðra barna í bráðri lífshættu. Patrick bendir á að einn pakki af vítamínbættu jarðhnetumauki kosti einungis 62 krónur og maukið innihaldi öll þau vítamín og næringarefni sem börn þurfi til að ná sér, þyngjast og verða aftur heilbrigð.

Undanfarna daga hefur UNICEF staðið fyrir neyðarsöfnun vegna ástandsins, undir yfirskriftinni Ekki horfa, hjálpaðu, og hafa þjóðþekktir Íslendingar tekið þátt í að kynna söfnunina.

„Þetta eru börn alveg eins og börnin ykkar. Þannig að foreldrar, eins og þið vitið, reyna í örvæntingu að koma börnum sínum aftur til heilsu,“ segir Patrick.

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna vannærðra barna í Nígeríu og nágrannaríkjunum er enn í fullum gangi, neyðin er gríðarleg og þörf á að stórauka aðgerðirnar. Hægt er að styðja söfnunina með því að senda sms-ið BARN í nr 1900 (1.000 kr).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×