Innlent

Þorsteinn Pálsson: Fróðleg úrslit og ánægjuleg

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þorsteinn Pálsson segir ýmsar breytingar í vændum.
Þorsteinn Pálsson segir ýmsar breytingar í vændum.
„Þetta eru mjög fróðleg úrslit og ánægjuleg fyrir okkur í Viðreisn, sem kemur sem sterkt afl inn í þingið. Svo auðvitað ræðst það þegar menn fara að rýna betur í úrslitin, hvaða möguleikar eru í stjórnarmyndun,“ segir Þorsteinn Pálsson, flokksfélagi Viðreisnar, í samtali við fréttastofu.

Þorsteinn segir að ljóst sé að ýmsar breytingar séu fram undan. „Það er að verða heilmikil breyting. Það er að þróast nýtt flokkamynstur og við eigum eftir að sjá meiri breytingar á komandi árum í þeim efnum,“ segir hann, en segist þó ekki vilja spá fyrir um hver næsta ríkisstjórn verði.

Pawel Bartoszek, sem skipar annað sæti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, tekur í sama streng, og segist ánægður með árangur flokksins. „Alltaf þegar maður stendur frammi fyrir þessum dómi, þegar hluti okkar vill fara á þing og ráða lögum í landinu og ráða hvernig fjármunum er varið þá getur maður ekki tekið því öðruvísi en með æðruleysi og ákveðinni lotningu,“ segir hann, en sjálfur kemst hann ekki á þing líkt og staðan er núna.

„Við erum búin að koma okkur sterkt fyrir á miðjunni. Auðvitað finnst manni gaman persónulega að komast inn en það er ekkert höfuðatriði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×