Lífið

Finnar ósáttir við sigurmark Íslands: „Ég er svo fúll núna“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu vann ótrúlegan sigur á Finnum á Laugardalsvelli í kvöld í fyrsta heimleik okkar í undankeppni HM í Rússlandi 2018.

Staðan var 1-2 fyrir Finnum eftir venjulegan leiktíma en það vantaði ekkert upp á dramatíkina í uppbótartímanum þegar strákarnir okkar skoruðu tvö mörk og tryggðu sér sigurinn. Sigurmarkið var umdeilt og voru finnsku leikmennirnir afar ósáttir við dómara leiksins en markið stóð.

Þá sagði Hans Backe þjálfari Finna á blaðamannafundi eftir leikinn að það væri hneyksli að markið skuli hafa verið dæmt gilt.

Á þræði á vefsíðunni Reddit eru Finnar líka óhræddir við að tjá sig um úrslit leiksins og aðrir notendur vefsins segjast finna til með Finnum.

Þannig segir einn notandi:

„Vá, ef ég væri stuðningsmaður Finnlands myndi ég drekka mig til dauða. Guð minn góður.“

Einn finnskur notandi segir:

„Þetta gerist í hverri einustu undankeppni nema að núna var það dómarinn sem klúðraði þessu fyrir okkur en ekki okkar eigin getuleysi eða miklu betri andstæðingur.“

Annar Finni segir að sínir menn hafi að minnsta kosti átt skilið jafntefli:

„Þetta átti aldrei að vera mark, markmaðurinn var með boltann. Ég er svo fúll núna, við áttum að minnsta kosti skilið jafntefli.“

Einn Finni til viðbótar veltir því fyrir sér af hverju þjóðin sé yfir höfuð að spila fótbolta.

„Ég er svo ógeðslega þreyttur á þessu. Það eru komnar 40 mínútur og ég finn bara ekki neitt. Af hverju að spila yfir höfuð fótbolta? Við gætum bara hætt að spila fótbolta. Ég veit ekki.“

Markið umdeilda má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×