Innlent

Vilja hækka bætur aldraðra og flýta hækkun lífeyristökualdurs

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Ríkisstjórn Íslands hefur lagt til að einstæðum eldri borgurum verði tryggðar 300 þúsund krónur á mánuði frá 1. janúar 2018. Þá muni bæturnar hækka í 280 þúsund um næstu áramót. Seinna á árinu 2018 munu lágmarkslaun hækka í 300 þúsund krónur samkvæmt kjarasamningum.

Framfærsluviðmið öryrkja verði einnig hækkuð í 300 þúsund krónur á sama tíma.

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fyrir alþingi frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra. Í tilkynningu frá Fjármálaráðuneytinu segir að frumvarpið sé afrakstur samráðs við hagsmunaaðila og það feli í sér róttækustu breytingar á almannatryggingum í áratugi.

Þá segir í tilkynningunni að fram hafi komið ábendingar og ýmis atriði sem betur mætti fara.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í dag að gera áðurnefndar breytingar auk nokkurra til viðbótar. Er sú ákvörðun sögð byggja á sterkri stöðu þjóðarbúsins og jákvæðum framtíðarhorfum.

Aðrar breytingar eru að frítekjumark verði sett á allar tekjur eldri borgara, hvort sem það eru lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur eða fjármagnstekjur. Það verði 25 þúsund krónur og verði undanþegið við útreikning bóta.

Þá verði hækkun lífeyristökualdurs hraðað um tólf ár. Hækkunin úr 67 árum í 70 eigi sér þannig stað á 12 árum en ekki 24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×