Lífið

Blóð, Brennifer, Brangelina og brostin hjörtu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hin mörgu sambönd Brad Pitt og Angelinu Jolie eiga margt sameiginlegt.
Hin mörgu sambönd Brad Pitt og Angelinu Jolie eiga margt sameiginlegt. Vísir/Getty
Heimurinn virðist enn vera að jafna sig á fréttunum af skilnaði frægustu hjóna Hollywood, Angelinu Jolie og Brad Pitt, Brangelinu, eins og hjónaband þeirra var iðulega kallað. Þau hafa í gegnum tíðina átt í stormasömum samböndum áður en þau fundu hvert annað.

Bæði virðast þau hafa smekk fyrir mótleikurum sínum en þau kynntust eins og frægt er við tökur myndarinnar Mr. og Ms. Smith árið 2004. Vísir fer hér yfir sambandssögu Pitt og Jolie sem snertir á Mike Tyson, blóði, mótleikurum og framhjáhaldi svo fátt eitt sé nefnt.

Ástarþríhyrningur með Mike Tyson

Fyrsta þekkta samband Brad Pitt var við leikkonuna Robin Givens en þau kynntust við tökur á sjónvarpsþættinum Head of Class sem sýndur var í bandarísku sjónvarpi á árunum 1986 til 1991. Brad Pitt lék þar gestahlutverk þegar hann var að fóta sig í Hollywood árið 1988.

Á þeim tíma var Givens gift boxaranum Mike Tyson en parið var reyndar að ganga í gegnum skilnað. Fyrir ekki svo mörgum árum ræddi Tyson um hjónabandið og þegar hann kom að Givens í rúminu með Pitt. Sagði Tyson að rétt áður en skilnaðurinn hafi gengið í gegn hafi hann ákveðið að heimsækja Givens til þess að kveðja hana í hinsta skipti ef svo má að orði komast. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir því að Givens var nú þegar í rúminu með Pitt.

„Ég var alveg brjálaður,“ sagði Tyson í spjallþætti árið 2012 þegar hann rifjaði upp atvikið.  „Þú hefðir átt að sjá svipinn á Pitt.“ Tyson virðist þó hafa fyrigefið Pitt en í sama þætti sagði hann að Pitt væri „fínn gaur.“

Juliette Lewis og Brad Pitt á góðri stundu.Vísir/Getty
Þorstinn í mótleikara þróast

Árið 1989 trúlofaðist Pitt leikkonunni Jill Schoelen en þau léku saman í myndinni Cutting Class. Trúlofunin endist þó ekki lengi og þremur mánuðum síðar voru þau hætt saman. Það þarf líklega ekki að koma á óvart að Pitt leitaði huggunar í örmum annarrar mótleikonu sinnar, Íslandsvinsins Juliette Lewis, en þau léku saman í Too Young To Die árið 1990 og Kalifornia árið 1993.

Sambandið endist í fjögur ár og er Juliette orðin ansi þreytt á því að svara spurningum um sambandið sem hófst árið 1990. „Af hverju spyrjið þið mig ekki um Rodney, kærastann minn í sjöunda bekk,“ sagði hún við blaðamann Huffington Post árið 2010. Hún var þó til í að tala um gamlar myndir af sér og Pitt og hló hún að algjörum skorti á tískuviti.

„Ég var bara í einhverjum bol af honum og því sem fann í skápnum mínum. Það var ekkert tískuvit í gangi,“ sagði Lewis.

Kærastinn flutti inn fjórtán ára

Angelina Jolie henti sér beint í djúpu laugina með sínu fyrsta sambandi en kærasti hennar flutti inn á heimili hennar, með leyfi móður Jolie, þegar þau voru fjórtán ára. Sagði hún að ef þau ætluðu sér að vera saman yrði það að vera í vernduðu umhverfi. Þau voru saman þangað til Jolie varð 16 ára en Jolie hefur sagt að sambandið hafi orðið til þess að hún hafi ákveðið að verða leikkona.

Jolie og Johnny Lee Miller við tökur á tímamótamyndinni Hackers.Vísir/Getty
Árið 1995 kynnist hún breska leikaranum Johnny Lee Miller við tökur á myndinni Hackers. Þau hófu samband á meðan tökur hófust en hættu saman skömmu síðar. Ástin virðist þó ekki hafa kulnað því nokkrum mánuðum síðar byrjuðu þau saman á ný og giftu sig árið 1996. Brúðkaupið sjálft var athyglisvert en í athöfninni var Jolie í hvítum bol sem á var ritað nafn brúðgumans í blóði.

Þau skildu árið 1999 en í millitíðinni hafði Jolie kynnst leikkonunni Jenny Shimizu við tökur á myndinni Fox Fire. Sambandið endist lengi, sumir segja allt til ársins 2005, en það var þó risjótt. Árið 2003, þegar Jolie var spurð hvort hún væri tvíkynhneigð var svarið afgerandi já.

„Að sjálfsögðu. Ef ég yrði ástfangin af konu á morgun myndi mér finnast í lagi að snerta hana og kyssa? Auðvitað!“

En aftur að Pitt

Árið 1994 hófust tökur á myndinni Seven og þar lék Pitt á móti leikkonunni Gwyneth Paltrow. Lesendur eru ef til vill farnir að þekkja handritið en þau hófu samband og urðu fljótt að einu allra frægasta pari Hollywood. Voru þau saman á árunum 1994 til 1997 og á þeim tíma varð Paltrow að einni skærustu stjörnu Hollywood.

Sjálf sagði Paltrow síðar að Brad Pitt hafi verið of góður fyrir sig og að hún hafi ekki verið reiðubúinn í sambandið. Sagði hún einnig að foreldrar sínir hafi elskað Pitt og að þeir hafi verið eyðilagðir þegar flosnaði upp úr sambandinu.



Billy Bob og Jolie. Blóðhylkin frægu má sjá um háls þeirra.Vísir/Getty
Meira blóð og Billy Bob

Eftir að sambandi Jolie og Miller lauk kynntist hún Billy Bob Thornton við tökur, nema hvað. Á þeim tíma var Billy Bob trúlofaður leikkonunni Laura Dern og Jolie í sambandi við Timothy Hutton, sem lék með henni í myndinni Playing God.

Hrifningin var þó svo sterk að þau hættu með sínum heittelskuðu og hófu samband. Giftu þau sig árið 2000 og var sambandið afar vinsælt hjá gulu pressunni. Urðu þau aldrei þreytt á því að lýsa yfir ódeyjandi ást sinni á hvort öðru og sem tákn um það gengu þau með hylki um hálsa sína sem innihéldu blóð úr hvort öðru.

Ástin virðist þó ekki hafa verið sterkari en það en að árið 2003 hættu þau saman. Sagði Jolie að hún hafi vaknað einn daginn og skyndilega hafi þau áttað sig á því að þau ættu ekkert sameiginlegt.

Á meðan allt lék í lyndi.Vísir/Getty
Hið fullkomna bandaríska hjónaband eða ekki

Samböndin verða ekki mikið stærri en Jennifer Aniston og Brad Pitt. Þau kynntust árið 1998 og giftu sig árið 2000. Sambandið var lengi vel talið hið fullkomna Hollywood-hjónaband. Jennifer var á hátindi frægðar sinnar í Friends-þáttunum vinsælu á meðan Brad Pitt lék í myndum á borð við Fight Club og Ocean's Eleven.

Samband þeirra hefur verið sagt hið fullkomna bandaríska samband. Ímynd Jennifer var þessi klassíska stelpa í næsta húsi með ljósa hárið sitt, vinalega andlit og Friends-vinsældir. Á sama tíma var Pitt hinn klassíski bandaríski góði gæi með allt sitt á hreinu. Allt það hrundi þó þegar Jolie og Pitt hófu tökur á myndinni Mr. and Ms. Smith. Eitthvað sem mögulega hefði verið hægt að sjá fyrir miðað við sögu sambanda þeirra til þessa.

Sjá einnig: Grasneysla Pitt, hugsanlegt framhjáhald hans og umdeildar uppeldisaðferðir

Myndin var tekin upp árið 2004 og fljótlega fór að bera á sögusögnum um framhjáhald Pitt með Jolie á tökustað, eitthvað sem þau hafa þvertekið fyrir. Upp úr flosnaði úr hjónabandi Pitt og Aniston en þau skildu árið 2005.

Fólk skiptist í fylkingar og hélt annaðhvort með Aniston eða Jolie líkt og fjallað hefur verið um. Árið 2011 sagði Pitt að undir lok hjónabands síns við Aniston hafi hann látið sem að hjónabandið væri eitthvað sem það væri í raun og veru ekki og að Angelina hafi blásið nýju lífi í líf hans.

Eftir stormasamt upphaf sambandsins voru þau æst í að varpa fram fjölskylduímynd sinni.Vísir/Getty
Hvað verður nú um Brangelinu?

Ímynd þeirra var þó slæm eftir skilnað Pitt við Aniston enda var sú mynd sem máluð var upp af Jolie sem einhverskonar hjónadjöfull á meðan Aniston var saklaus og vinsæl. Ef til vill er það ástæðan fyrir því að Jolie og Pitt pössuðu sig á því fara ekki hratt af stað í sambandið.

Þá hafa þau gert afskaplega mikið til þess að bæta ímynd sína undanfarin ár. Á vef Buzzfeed hefur því verið haldið fram að engum hafi tekist að endurskapa ímynd sína jafn vel eftir skilnað Aniston og Pitt og Jolie sem er nú þekkt sem heimsborgari sem lætur sig málefni flóttamanna og þeirra sem minna mega sín mest varða.

Fjölmiðlar ytra hafa þó velt vöngum hvað verði nú um Angelinu og Brad sem hafa með sambandi sínu nánast orðið að sömu persónunni, Brangelinu, en aldrei hafi verið fjallað um hitt án þess að minnast á annað. Ef sagan er dómbær á það má telja víst að annaðhvort þeirra, mögulega bæði, munu hefja samband með einhverjum af mótleikurum sínum í næstu verkefnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×