Innlent

Sérfræðingarnir sem geta talað um allt safnast oft fyrir sunnan

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sauðfjárbóndi á sunnanverðum Austfjörðum sér fram á verulega tekjulækkun með nýjum búvörusamningi. Kúabóndi á sama svæði segist heldur ekki koma vel út og kvartar undan óvæginni umræðu „sérfræðinganna" fyrir sunnan. 

Á Núpi á Berufjarðarströnd reka hjónin Vilborg Friðriksdóttir og Björgvin Gunnarsson eitt nythæsta kúabú landsins með um eitthundrað mjólkandi kúm en eru jafnframt með sauðfé. Þau hafa reiknað út áhrif nýja búvörusamningsins: 

„Við settum inn í reiknilíkan okkar rekstur og það er ekkert að koma vel út úr þessum nýja samningi,“ segir Björgvin. Hann segir þetta bæði eiga við um sauðfjár- og kúahlutann. 

Í Fossárdal við Berufjörð reka hjónin Guðný Gréta Eyþórsdóttir og Hafliði Sævarsson eitt af stærri sauðfjárbúum Austurlands með um sexhundruð fjár. Þau hlutu landbúnaðarverðlaunin fyrir tveimur árum fyrir fyrirmyndarbúskap en sjá nú fram á versnandi hag. 

„Við höfum ekki þurft að kvarta núna allra síðustu ár en með nýjum samningum munu tekjurnar hjá okkur lækka verulega þegar líður á samningstímann,“ segir Hafliði. 

Bændurnir í Fossárdal við Berufjörð, Hafliði Sævarsson og Guðný Gréta Eyþórsdóttir.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Spurð hvort þetta ógni byggðinni svarar Guðný Gréta: 

„Örugglega einhversstaðar á landinu. En maður veit ekkert hvað verður í framtíðinni,“ segir hún.

„Það fer allt eftir því hvort tekst að selja kjötið okkar erlendis á mörkuðum, - borgandi mörkuðum,“ segir Hafliði.

Á Berufjarðarströnd finnst bændum umræðan ósanngjörn. 

„Mér finnst umræðan stundum óvægin á köflum. Mér finnst þeir ekki nógu öflugir, okkar menn, að svara fyrir okkur. Við kannski þurfum að gera það bara sjálfir,“ segir Björgvin á Núpi og bætir við: 

„Það er svo mikið af svona sérfræðingum sem geta talað um allt, þó að þeir hafi ekkert vit á því. Þeir safnast ótrúlega oft þarna fyrir sunnan. Of oft, held ég.“


Tengdar fréttir

Endurskoða þurfi verklag við atkvæðagreiðslur

Birgitta Jónsdóttir segir þingflokk Pírata stóla á dómgreind nefndarfulltrúa síns hverju sinni. Hún þurft að víkja af þingfundi vegna persónulegra aðstæðna þegar búvörusamningur var samþykktur í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×