Innlent

Egill segist hafa orðið fyrir fitufordómum Arnars Páls

Jakob Bjarnar skrifar
Egill hefur nú stigið fram, eftir að Arnar Páll sagði Sigurð Inga feitan, og upplýst að sjálfur hafi hann orðið fyrir fitufordómum af hálfu Arnars Páls.
Egill hefur nú stigið fram, eftir að Arnar Páll sagði Sigurð Inga feitan, og upplýst að sjálfur hafi hann orðið fyrir fitufordómum af hálfu Arnars Páls.
Egill Helgason sjónvarpsmaður segist hafa orðið fyrir fitufordómum frá Arnari Páli Haukssyni útvarpsmanni í mötuneyti Ríkissjónvarpsins við Efstaleiti.

Mikil umræða geisar nú á Facebook-síðu Vigdísar Hauksdóttur alþingismanns eftir að greint var frá því að Arnar Páll hafi spurt, þannig að náðist á upptöku, hvar þau ættu að koma „þeim feita fyrir", í pallborðsumræðum sem útvarpað var. Vísir hefur greint frá málinu hér.

Egill blandar sér í umræðuna og upplýsir að sjálfur hafi hann orðið fórnarlamb meintra fitufordóma Arnars Páls. Egill geldur varhug við alhæfingum um að allir starfsmenn RÚV hatist við Framsóknarflokkinn, líkt og Vigdís heldur fram. Eða með orðum Egils sjálfs, sem hann lætur falla í athugasemdakerfi Vigdísar á Facebokk:

„Eigum við kannski að segja aðeins minna um að þetta séu "starfsmenn Rúv". Það eru líka til feitir Rúvarar. Og ég skal segja eins og er, ég varð fyrir fitufordómum frá Arnari Páli í mötuneytinu um daginn."

Egill tekur upp hanskann fyrir samstarfsmenn á RÚV

Óhætt er að segja að Framsóknarmenn og aðrir vinir Vigdísar séu ósáttir við ummæli Arnars Páls fyrr í dag og gefa lítið fyrir afsökunarbeiðnina. Ummælin lýsi viðhorfi fólks í Efstaleiti til Framsóknarmanna sem hafa undanfarin misseri kvartað undan því sem þau kalla aðför að flokknum. 

Nærtækasta dæmið mun vera samstarf Kastljóss við Reykjavík Media og sænska ríkissjónvarpið og Wintris-viðtalið fræga sem leiddi til afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Agli finnst lítið til þessara skoðana koma og svarar hraustlega.

„Þessar alhæfingar um starfsmenn Rúv eru vægast sagt ósmekklegar og makalaust hvað fólk leyfir sér að taka stórt upp í sig - alhæfa,“ segir Egill. 

„Nú er til dæmis fjöldi starfsmanna Rúv að senda út frábæra tónleika í Hörpu, í gær vorum við að senda út þátt um byggingarsögu, á sunnudaginn er það ný röð af Orðbragði, svo nokkuð sé nefnt, Kastljós var í vikunni með umfjöllun um ofurbónusa og hræðileg læknamistök sem var reynt að dylja. Allt er þetta fólk að sinna starfi sínu að samviskusemi og eftir bestu getu.“

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×