Innlent

Fréttamaður bað forsætisráðherra afsökunar á að hafa kallað hann feitan: „Þetta voru hrapaleg mistök“

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá pallborðsumræðunum á Fundi fólksins fyrr í dag.
Frá pallborðsumræðunum á Fundi fólksins fyrr í dag. Vísir/Eyþór

Arnar Páll Hauksson, fréttamaður Ríkisútvarpsins, hefur beðið Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra innilegrar afsökunar á því að hafa kallað ráðherrann feitan á Fundi fólksins í dag.

Um var að ræða pallborðsumræður stjórnmálaleiðtoga sem var í beinni útsendingu sem Arnar Páll stýrði. Rétt áður en hann átti að hefjast höfðu allir stjórnmálaleiðtogarnir raðað sér við pallborðið nema Sigurður Ingi.

Eiginlegur fundur var þá ekki hafinn en Arnar Páll heyrðist þá spyrja Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, og Óttarr Proppé, formann Bjartrar framtíðar, „hvar ætlið þið að láta þennan feita vera?“ og átti þá við Sigurð Inga. Katrín Jakobsdóttir heyrðist svo spyrja hvort enginn komi frá Framsóknarflokknum en þá endurtók Arnar Páll spurninguna: „Hvar eigum við að koma honum fyrir, þessum feita.“

Þetta náðist allt á upptöku en það var Einar Freyr Elínarson, formaður samtaka ungra bænda, sem vakti máls á þessu í kvöld og hafa bæði Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, og Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, gagnrýnt þessa framkomu fréttamannsins.

Arnar Páll segir í samtali við Vísi hafa hringt í forsætisráðherrann og beðið hann innilegrar afsökunar á þessu. „Hann tók því bara mjög vel og ég met hann mjög mikils sem stjórnmálamann. Þetta voru hrapaleg mistök,“ segir Arnar Páll.

Hægt er að heyra ummælin þegar þrjár klukkustundir og átján mínútur eru liðnar af myndbandinu. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.