Innlent

Engin niðurstaða í kjaraviðræðum sjómanna

Höskuldur Kári Schram skrifar
Reynt verður til þrautar að ná samkomulagi í kjaraviðræðum sjómanna og útgerðarmanna á næstu dögum. Sjómenn ætla að grípa til verkfallsaðgerða ef ekki tekst að leysa deiluna.

Samninganefndir sjómanna og útgerðarmanna komu saman í húsnæði ríkissáttasemjara klukkan hálf tvö í dag. Sjómenn hafa verið án kjarasamnings í fimm ár en þeir felldu samning sem var undirritaður fyrr í sumar. Litið var á fundinn í dag sem úrslitatilraun til að ná samkomulagi og koma í veg fyrir verkfallsboðun sjómanna.

Fundurinn stóð í rúmar þrjár klukkustundir og var ákveðið að halda viðræðum áfram á morgun.

Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands segir að staðan ætti að skýrast eftir fundinn á morgun.

„Síðan 10. ágúst höfum við verið að reyna að koma saman öðrum samningum á þeim grunni sem hinn var með einhverjum viðbótum. Það hefur gengið svona og svona og menn eru að skiptast á hugmyndum núna um allt og ekki neitt. Ég get ekki sagt hvað það er sem menn eru að tala um núna en það kemur í ljós á morgun hvort það næst saman eða ekki,“ segir Valmundur.

Hann segir að boðað verði til atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir meðal aðildarfélaga ef ekki tekst að leysa deiluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×