Innlent

Höskuldur segir ótækt að boða ekki til flokksþings fyrir kosningar

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Höskuldur Þórhallsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Höskuldur Þórhallsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Vísir/Daníel/Valli

Mikil óánægja er meðal Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi eftir að tillaga um að flýta flokksþingi flokksins var felld með naumum meirihluta í dag.

Þingmaður flokksins segir niðurstöðuna vonbrigði og það sé ótækt að ganga til kosninga án þess að boða til flokksþings. Flokksþing hefur æðsta vald í málefnum Framsóknarflokksins en á þinginu er æðsta stjórn flokksins kosin, það er formaður, varaformaður og ritari.

Samkvæmt reglum flokksins eru tvær leiðir til að boða til þess. Annars vegar getur miðstjórn flokksins boðað til flokksþings og hins vegar er skylt að boða til flokksþings ef meirihluti kjördæmisþinga óskar þess en þau eru fimm talsins.

Þrjú kjördæmisþing voru haldin í dag – á Suðurlandi, Norðvesturlandi og Norðausturlandi. Í Suðurkjördæmi, sem er kjördæmi Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra, var tillaga um að halda flokksþing fyrir kosningar og kjósa þannig um nýja forystu, samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Í Norðvesturkjördæmi var slík tillaga samþykkt samhljóða.

Í Norðausturkjördæmi, sem er kjördæmi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns flokksins, var tillagan hins vegar felld með naumum meirihluta. 

„Ég er fyrst og fremst vonsvikinn að þetta hafi orðið niðurstaðan. Ég hélt að það væri augljóst og að það lægi fyrir að núverandi forysta og þá á ég við alla þá sem að eru í forystu flokksins, þar á meðal ég, þurfum að endurnýja umboð okkar á flokksþingi,” segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Þar sé einnig mörkuð stefna fyrir komandi kosningar.

„Ég er þeirrar skoðunar að það sé algjörlega ótækt að það verði ekki flokksþing áður en við göngum til kosninga,” segir Höskuldur. Framsóknarflokkurinn á fjóra þingmenn í Norðausturkjördæmi.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu greiddu tveir þingmenn atkvæði með því að boðað yrði til flokksþings, þau Líneik Anna Sævars­dóttir og Höskuldur Þórhallsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórunn Egilsdóttir greiddu hins vegar atkvæði gegn tillögunni.
 
 
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.