Innlent

Bogi settur til að leysa vanhæfisvandann

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Bogi Nilsson.
Bogi Nilsson. vísir/anton brink
Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, hefur verið settur ríkissaksóknari í máli um kæru fyrrverandi sakborninga í LÖKE-málinu á hendur Öldu Hrönn Jóhannesdóttur, yfirlögfræðings hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram í svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn frá RÚV. Í svarinu kemur enn fremur fram að hlutverk Boga verði að fela löghæfum manni að fara með málið sem héraðssaksóknari.

Áður hafði Ólafur Ólafsson, sýslumaður á Vesturlandi, verið settur saksóknari en honum síðar vikið þar sem lögmaður annars málshefjanda taldi vináttu hans við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, valda vanhæfi hans. Sigríður Björk er vitni í málinu. Áður höfðu embætti Héraðssaksóknara og Ríkissaksóknara lýst sig vanhæf til að fara með málið.

Kæra sakborninganna tveggja í LÖKE-málinu, fyrrverandi starfsmanns Nova, og lögreglumannsins GunnarS Scheving Thorsteinssonar, lýtur að röngum sakargiftum og meintum brotum Öldu Hrönn í starfi sínu.

Þrír voru handteknir í tengslum við málið á vormánuðum árs 2014. Tveir þeirra voru ekki ákærðir en Gunnar Scheving var sakfelldur fyrir að brjóta gegn þagnarskyldu. Honum var hins vegar ekki gerð refsing fyrir brot sitt. Þá hafði hann verið ákærður fyrir að fletta upp nöfnum 45 kvenna í upplýsingakerfi lögreglunnar en sá liður var felldur niður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×