Íslenskur karlmaður er grunaður um að hafa nauðgað konu og beitt hana hrottalegu ofbeldi á heimili hennar á föstudag fyrir rúmri viku.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins á maðurinn meðal annars að hafa skorið í andlit konunnar. Maðurinn, sem er fæddur 1991, og konan þekktust.
Hann var handtekinn á heimili konunnar og var úrskurðaður í einnar viku gæsluvarðhald sem rann út í gær. Gæsluvarðhaldið var framlengt um fjórar vikur á grundvelli almannahagsmuna. Sá úrskurður hefur verið kærður til Hæstaréttar að sögn Einars Huga Bjarnasonar, verjanda mannsins, og kemur í ljós eftir helgi hver niðurstaðan verður. Einar segir skjólstæðing sinn lýsa yfir sakleysi sínu en tjáir sig ekki frekar um málið.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er rannsókn málsins langt komin.
Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu.

