Innlent

Quarashi styður ákvörðun hljómsveitanna fimm

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Árið 2011 tók Quarashi skýra afstöðu gegn kynferðisafbrotum á útihátíðum. Sveitin er nú undir felld með framhaldið í Vestmannaeyjum.
Árið 2011 tók Quarashi skýra afstöðu gegn kynferðisafbrotum á útihátíðum. Sveitin er nú undir felld með framhaldið í Vestmannaeyjum. Vísir
Hljómsveitin Quarashi styður framtak sveitanna fimm sem sendu út þá tilkynningu í dag að þeir hygðust hætta við framkomu sína á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum nema að skýr stefnubreyting verði hjá lögregluyfirvöldum í Vestmannaeyjum varðandi kynferðisafbrot. Þar krefjast Retro Stefson, Úlfur Úlfur, Agent Fresco, Emmsjé Gauti og Sturla Atlas að lögregluyfirvöld temji sér sömu viðbrögð sem Landsspítali og Stígamót telji æskilegust á slíkri tónlistarhátíð.

Hljómsveitin Quarashi hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hún ætli einnig að draga sig út af dagskrá Þjóðhátíðar í ár en sveitin ætlar að funda um málið í kvöld.

„Okkur finnst þetta mjög flott framtak og við styðjum þetta heilshugar,“ segir Sölvi Blöndal liðsmaður Quarashi. "Við vonum að Þjóðhátíðarnefnd og lögreglustjóri taki gagnrýnina til sín og breyti afstöðu sinni."

Sveitin lagði línurnar í þessum málum árið 2011 þegar þeir neituðu að koma fram á Bestu útihátíðinni nema að liðsmenn NEI! Hópsins fengju að vera á svæðinu og að þeir myndu ekki stíga á svið ef ein nauðgun yrði kærð fyrir framkomu þeirra. Ekkert kynferðisafbrotamál var kært á hátíðinni það árið.

Einnig gaf Quarashi Stígamótum 500 þúsund krónur af tekjum sínum fyrir spilamennsku á hátíðinni það árið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×