Óhætt er að segja að allar fréttastofur landsins hafa reynt að ná tali af þeim Bjarna og Sigurði Inga. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Vísir hefur eru þeir báðir utan þjónustusvæðis; Sigurður Ingi í hestaferð og Bjarni í fjallgöngu. Svo virðist sem þingflokkur Framsóknarflokksins standi með Sigmundi Davíð, samkvæmt eftirgrennslan Vísis í gær, og Gunnar Bragi Sveinsson hefur lýst yfir sinni afstöðu.
Höskuldur Þórhallsson hefur hins vegar sagt að einörð afstaða Sigmundar Davíðs hafi hleypt öllu í uppnám og geti hugsanlega orðið til þess að sprengja ríkisstjórnina í loft upp. Og víst er að það þarf tvo til að dansa tangó; Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að þetta sé frágengið, með kosningarnar í haust.
Bjarni virðist nú vera kominn í netsamband því fyrir um tveimur tímum birti hann mynd af sér á toppi fjallsins Strúts. Hugsanlega geta pólitískir greinendur gert sér mat úr stuttum skilaboðum foringja Sjálfstæðisflokksins.
„Uppi á Strúti í grænu eins og Mælifellið.“
Ríkisráðsfundur verður haldinn á morgun, klukkan ellefu, sem er þá síðasti fundur Ólafs Ragnars Grímssonar fráfarandi forseta íslenska lýðveldisins; og því má gera ráð fyrir þessum foringjum ríkisstjórnarinnar í bæinn fyrr en seinna.
Uppi á Strúti í grænu eins og Mælifellið pic.twitter.com/Gfc2ZbRtgy
— Bjarni Benediktsson (@Bjarni_Ben) July 27, 2016