Innlent

Íslendingar í Nice: „Allt í einu fór fólk að hlaupa og öskra“

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Myndin er tekinn um fimm mínútum áður en þau urðu vör við árásina í borginni.
Myndin er tekinn um fimm mínútum áður en þau urðu vör við árásina í borginni. Vísir/Róslín
Róslín Alma Vademarsdóttir og kærasti hennar Rafn Svan voru nýlega lent í Nice þegar þau urðu vör við ofsahræðslu á götum úti. Þau höfðu verið á gangi um borgina í tæpan klukkutíma þegar þau urðu skyndilega vör við að eitthvað alvarlegt hefði gerst.

„Við vorum bara nýlent og ákváðum að fara út á strönd til þess að sjá restina af flugeldasýningunni,“ segir Róslín sem nú er stödd á hóteli sínu sem er staðsett í fimmtán mínútna göngufjarlægð frá þeim stað þar sem trukkurinn keyrði inn í mannþröngina. „Allt í einu fór fólk að hlaupa og öskra. Við vissum ekkert hvað var í gangi og hlupum bara líka. Það gat enginn sagt okkur neitt svo við drifum okkur bara upp á hótel í sjokki.“

Róslín segir engan hafa vitað hvað hafi gerst í fyrstu. Jafnvel ekki fólkið sem vann við afgreiðslu á hótelinu. Í fyrstu heyrðu þau að 2 -3 hefðu látist en nú séu þau að átta sig á því að ástandið sé mun verra en á horfðist í fyrstu.

„Við erum bara að horfa á sjónvarpið núna eins og allir aðrir. Við erum búin að heyra mikið í sírenum hér fyrir utan en ekki í neinum skothvellum sem betur fer.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×