Innlent

Ísbjörn á land á Skaga: "Við trúðum þessu ekki“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Það var merkileg upplifun fyrir börnin á bænum að fá að vaka lengur vegna þess að hvítabjörn kom á land við heimili þeirra. Myndin til hægri er úr safni.
Það var merkileg upplifun fyrir börnin á bænum að fá að vaka lengur vegna þess að hvítabjörn kom á land við heimili þeirra. Myndin til hægri er úr safni. Vísir/Karitas
„Við vorum mikið að pæla í þessu, því okkur fannst hún haga sér eitthvað undarlega,“ segir Karitas Guðrúnardóttir, íbúi á Hvalnesi á Skaga, en hún var í reiðtúr ásamt eiginmanni sínum þegar þau greindu eitthvað hvítt í fjarska sem þau héldu í fyrstu að væri kind.

„En svo stóð hann upp á afturlappirnar, rétti alveg úr sér,“ útskýrir Karitas en þá rann upp fyrir þeim hjónum að þarna var ekki um kind að ræða heldur stærðarinnar ísbjörn. Mbl.is greindi fyrst frá málinu í nótt.

Hér að neðan má sjá hvert bjarndýrið var flutt í nótt en bærinn Hvalnes stendur austar og norðar á þessum sama skaga.

Karitas býr á bænum Hvalnesi á Skaga ásamt eiginmanni sínum Agli Þóri Bjarnasyni. Þeim brá við þessa sjón eins og gefur að skilja en þau urðu vör við ísbjörninn um klukkan ellefu í gærkvöldi. Bjarndýrið var svo fellt í nótt. 

„Þá tókum við stökkið heim því að börnin voru að leik þarna við bæinn,“ segir Karitas. „Við vorum náttúrulega bara í sjokki. Við trúðum þessu ekki fyrr en við vorum komin með kíki og fengum alveg staðfest með eigin augum að þetta væri björn.“ 

Enginn hafís við landið nú

Karitas rifjar upp að fyrir nokkrum árum hafi komið björn komið á land við Hraun sem er í um fjörutíu kílómetra fjarlægð frá Hvalnesi.

Hér má sjá skyttuna við bjarndýrið eftir að það var fellt.Vísir/Karitas
„Þannig að þetta hefur gerst. En þetta er skrýtið því að það er náttúrulega enginn hafís núna, um hásumar,“ segir Karitas. Hún telur að mögulega hafi bjarndýrið synt sjálft að landi og látið sig reka um stund. Bjarndýrið var birna sem var frekar vel á sig komin að sögn Karitas. 

Þau hjónin bregðast hratt og örugglega við, byrja á því að smala krökkunum sínum inn í hús og ná í heimalingana á bænum. Svo er hringt í Jón Sigurjónsson á bænum Garði í Hegranesi en hann er góðvinur þeirra hjóna og góð skytta. 

„Svo hringjum við í lögregluna og hún lætur fólk á nærliggjandi bæjum vita. Svo bara koma þeir og allir eru í viðbragðsstöðu.“ Hún segir þó að birnan hafi virst róleg og á meðan hafi hópurinn verið rólegur. Jón skaut birnuna svo og tókst að gera það með þeim hætti að lítið blæddi á feldinn. 

Birnan var svo sótt og sett í frysti á Skagaströnd. Svo mun Náttúrufræðistofnun taka við henni og skoða hana. Ekki er ljóst á hvaða aldri dýrið var en Náttúrufræðistofnun mun aldursgreina það og þess háttar. Karitas segir þó að menn í nótt hafi talið hana vera vel fullorðna, hún var með brotna vígtönn sem er talið gefa til kynna að hún hafi séð tímana tvenna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.