Innlent

Guðni og Ólafur Ragnar báðir á forsetavaktinni í Nice

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur Ragnar og Guðni Th. verða að öllum líkindum báðir í VIP-stúkunni, heiðursstúku þar sem fræga fólkið horfir á leikina.
Ólafur Ragnar og Guðni Th. verða að öllum líkindum báðir í VIP-stúkunni, heiðursstúku þar sem fræga fólkið horfir á leikina. Vísir/Ernir/Anton Brink
Forsetavaktin verður vel skipuð á Allianz Riviera leikvanginum í Nice annað kvöld þegar strákarnir okkar í karlalandsliði Íslands í knattspyrnu mæta Englendingum í sextán liða úrslitum EM í Frakklandi. 

Guðni Th. Jóhannesson, sem vann sigur í forsetakosningunum í gær, verður á svæðinu. Guðni er mikill áhugamaður um íþróttir en bræður hans, Jóhannes og Patrekur, léku báðir handbolta í efstu deild. Patrekur á fjölda landsleikja að baki og er sem stendur þjálfari austurríska landsliðsins.

Ólafur Ragnar Grímsson, fráfarandi forseti og forseti Íslands undanfarin tuttugu ár, verður sömuleiðis viðstaddur leikinn. Það staðfestir Örnólfur Thorsson forsetaritari við Vísi. Þau Dorrit Moussaieff voru viðstödd 1-1 jafnteflið gegn Portúgal í fyrsta leik riðlakeppninnar þar sem Dorrit hjálpaði Ara Frey Skúlasyni að slaka á í leikslok.

Engum sögum fer um það hvort Guðni og Ólafur muni sitja hlið við hlið en það verður að koma í ljós. Þeir verða þó báðir að öllum líkindum í heiðursstúkunni. Guðni tekur við embætti forseta Íslands þann 1. ágúst næskomandi.

Tvöföld forsetavakt ætti að bæta upp fyrir fjarveru Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra sem lofar hins vegar að mæta í átta liða úrslitin, komist íslenska liðið þangað.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×