Innlent

Lögregla mun þurfa að sækja hælisleitendur til altarsins

Bjarki Ármannsson skrifar
Laugarneskirkja.
Laugarneskirkja. Vísir/GVA
Laugarneskirkja verður í nótt opin tveimur íröskum hælisleitendum sem til stendur að senda til Noregs í nótt. Í tilkynningu frá presti innflytjenda og sóknarpresti Laugarneskirkju segir að gjörningum sé ætlað að tjá samstöðu með hælisleitendunum tveimur og áhyggjur yfir aðgerðarleysi íslenskra yfirvalda í málefnum einstakra hælisleitenda.

Prestarnir tveir vísa til þess að Noregur sendi flóttafólk frá suðurhluta Íraks aftur til heimalandsins af þeirri ástæðu að þeim sé ekki hætta búin þar. Sú stefna gangi í berhögg við alþjóðleg samkomulög.

Kirkjan opnar klukkan fjögur og í nótt og segir í tilkynningunni að lögreglan muni þurfa að sækja mennina tvo, þá Alí Nasír og Majed, upp til altarsins.

„Lögreglunni verður mætt með virðingu og án viðspyrnu og verður henni gerð grein fyrir því hvaða merkingu þessi tiltekni staður hefur þegar kemur að mannhelgi og griðum,“ segir í tilkynningunni.

Kirkjan verður opin gestum sem vilja biðja bænir, lesa úr ritningunni eða ræða saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×