Innlent

Nýjar mælingar sýna að Hekla er tilbúin að gjósa

Kristján Már Unnarsson skrifar
Nýjar hallamælingar staðfesta að þrýstingur í Heklu er orðinn meiri en var fyrir tvö síðustu gos. Prófessor í jarðeðlisfræði varar við ferðum á Heklu þar sem hún geti gosið hvenær sem er. 

Síðasta Heklugos hófst í lok febrúar árið 2000 en þá hafði fjallið gosið nokkuð reglulega á tíu ára fresti frá árinu 1970. En þótt nú séu liðin sextán ár frá því jarðeldur opnaðist síðast í þessu frægasta eldfjalli Íslands varar jarðeðlisfræðiprófessorinn Páll Einarsson við því að gos geti hafist með litlum fyrirvara.

„Hekla er vissulega hættuleg. Við gætum staðið uppi með stórslys í byrjun næsta goss, ef við vörum okkur ekki. Sérstaklega vegna þess að aðdragandi Heklugosa er mjög stuttur,” segir Páll.Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
„Hekla er orðinn mjög vinsæll ferðamannastaður. Það eru ferðamannahópar á Heklu mikinn hluta sumars nú orðið.” Ferðalöngum í háloftunum gæti einnig stafað hætta af fjallinu, að mati Páls.

„Það fljúga flugvélar hlaðnar farþegum beint yfir toppinn á Heklu, 20-30 sinnum á sólarhring. Þetta eru hættumóment sem við þurfum að taka alvarlega.”

Og það er tilefni til þess að hafa varann á.

„Við erum nýbúin að mæla halla á hallamælistöð við Heklu, sem hefur sýnt mjög áreiðanleg merki, - sem sýnir það og staðfestir að Hekla hefur verið að safna kviku og er enn að safna kviku fyrir næsta gos. Og er komin með þrýsting sem er hærri heldur en var fyrir tvö síðustu gos. Þannig að hún er alveg til í slaginn, hvenær sem er,” segir Páll Einarsson.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.