Innlent

Fékk heilablæðingu í beinni á ÍNN

Bjarki Ármannsson skrifar
„Þetta var svona viðvörun, enda er maður orðinn hundgamall,“ segir Ingvi Hrafn.
„Þetta var svona viðvörun, enda er maður orðinn hundgamall,“ segir Ingvi Hrafn. Vísir/Anton Brink
„Þetta var svona viðvörun, enda er maður orðinn hundgamall,“ segir Ingvi Hrafn Jónsson fjölmiðlamaður, nýútskrifaður af spítala eftir að hafa næstum því hvatt þennan heim í beinni útsendingu á ÍNN.

Ingvi Hrafn fékk væga heilablæðingu á fimmtudagskvöld sem skall á og hvarf á um þrjátíu mínútum, að hans sögn. DV greindi fyrst frá atvikinu. Ingvi eyddi nóttinni á spítala en þegar blaðamaður Vísis náði af honum tali var hann við hestaheilsu á leið í sumarbústað í Borgarfirðinum í glampandi sól.

„Ég var að byrja að taka upp inngang að Hrafnaþingsþætti þannig að ég á þetta heilablóðfall í beinni útsendingu,“ segir Ingvi Hrafn. „Og ég mun afhenda læknadeild háskólans disk af þessu svo að ungir framtíðarlæknar geti séð hvernig þetta gerist.“

Ingvi segist hafa gert sex eða sjö tilraunir til að reyna að byrja þáttinn, en ekki getað komið orðunum frá sér. Taltruflanir ýmis konar eru algengt einkenni heilablóðfalls.

„Þetta var einhver talfæraruglingur,“segir hann. „Sem Ingvi Hrafn er ekki vanur að hafa uppi, eins og þú veist. Að ég skyldi ekki bara hafa fattað hvað var að gerast og komið mér upp á spítala strax. Í staðinn þrælaðist ég í gegnum tuttugu mínútna inngang.“

Ingvi Hrafn þakkar hlýjar kveðjur og fyrsta flokks umönnun á Landspítalanum. Hann verður kominn í vinnuna á mánudagsmorgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×