Lífið

Battlað í borginni: „Skilyrði að útlendingar læri íslensku“

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Jade, Jeff, Luis, Beata og Carina eru útlensk nöfn en hljóma ekki ókunnuglega í íslenskum skólastofum í dag. Enda hefur innflytjendum hér fjölgað hratt síðastliðna tvo áratugi. Þessi fimm ungmenni, sem fylgst hefur verið með í þáttaröðinni Battlað í borginni, hafa öll aðlagast vel íslensku samfélagi, eða tilveru í íslensku samfélagi. Sum er fljúgandi mælsk á íslensku, önnur grípa oft til enskunnar.

Eftir að hafa fylgst með íslenska streetdansheiminum, þar sem margir hafa ensku á hraðbergi, ákvað teymið á bak við Battlað í borginni að fara á stúfana og spyrja alls konar fólk; bílasala, íslenskufræðinga, kennara, menntskælinga, prjónakonur, bifvélavirkja og innflytjendur eftirfarandi spurningar: Hvað þýðir það eiginlega að aðlagast íslensku samfélagi? Fyrsta svar næstum allra var „að læra íslensku”, eins og má sjá í myndskeiðinu sem hér fylgir. Og sumum finnst að setja þurfi það skilyrði fyrir búsetu innflytjenda í landinu að þeir læri íslensku.

Þriðji þáttur af Battlað í borginni fer í loftið á mánudagskvöld, 23. maí, kl. 20:30, á Stöð 2. Jeff og Carina fá GoPro vél í einn dag, við kynnumst mömmu hans Luis, fylgjumst með þeim æfa sig fyrir danskeppnina og rýnum í spurninguna hvað það þýðir að aðlagast íslensku samfélagi. Umsjón og framleiðsla þáttanna er í höndum Lóu Pind Aldísardóttur, myndatökumaður er Egill Aðalsteinsson, klippingu annast Ólafur Chelbat.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×