Innlent

Oddný nýtur mests fylgis meðal almennings sem formaður Samfylkingarinnar

Birgir Olgeirsson skrifar
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Vísir/Vilhelm
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, nýtur mests fylgis í stöðu formanns Samfylkingarinnar samkvæmt  könnun Gallups

Oddný mælist með 32,4 prósenta fylgi en þar á eftir kemur Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar með 29,9 prósent. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, mælist með 20 prósenta fylgi, Magnús Orri Schram með 12,3 prósenta fylgi og Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi af Seltjarnarnesi, með 5,5 prósent. 

Í samtali við Vísi segir Oddný þessa niðurstöðu vera ánægjulega en tók fram að þetta sé einungis léttur samkvæmisleikur. Munurinn sé lítill á henni og Helga Hjörvari og hafi könnunin því takmarkað spádómsgildi. 

Könnunina framkvæmdi Gallup fyrir stuðningsmenn Helga Hjörvars, þingmanns Samfylkingarinnar, dagana 7. – 13. apríl síðastliðinn en spurt var hvert þeirra sem lýst hafa yfir framboði, auk sitjandi formanns, væri best fallið til þess að verða næsti formaður flokksins. Lýsir könnunin aðeins afstöðu almennings til spurningarinnar en ekki flokksmanna í Samfylkingunni en þeir einir hafa atkvæðisrétt í formannskjörinu. 

Um er að ræða netkönnun þar sem 53,5% svarenda tóku afstöðu til frambjóðenda en 1435 manns úr viðhorfahópi Gallup voru í úrtaki og bárust svör frá 848 þeirra. Svarhlutfallið var því 59,1%.

Landsfundur Samfylkingarinnar er fyrirhugaður 4. júní næstkomandi. Í tengslum við fundinn fer fram allsherjaratkvæðagreiðsla um embætti formanns flokksins. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.