Innlent

Aukafréttatími Stöðvar 2 klukkan tólf: "Þurfum í sameiningu að takast á við þessa alvarlegu stöðu“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mætti til Íslands í morgun ásamt eiginkonu sinni Dorrit Moussaieff eftir næturlag frá Bandaríkjunum. Sveinn Arnarsson, fréttamaður 365 miðla, ræddi við forsetann í flugstöðinni í Keflavík í morgun.

Viðtalið í heild verður spilað í aukafréttatíma Stöðvar 2 klukkan 12 á hádegi á samtengdum rásum Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Fréttatíminn verður einnig í beinni útsendingu hér á Vísi og hægt er að fylgjast með honum í spilaranum hér að neðan.

Ólafur Ragnar var meðal annars spurður að því hvort hann teldi stöðuna sem upp er kominn í íslensku samfélagi alvarlega.

„Það þarf ekki mikla kunnáttu til að svara því játandi,“ sagði Ólafur Ragnar.

Alvarleg staða blasir við

„Þegar einstaklega mikill fjöldi fólks mætir á Austurvöll og fundum Alþingis er frestað og fundum ríkisstjórnar líka þá held ég að blasi við öllum, ekki bara forsetanum heldur hverjum og einum íslendingi, að við þurfum í sameiningu að takast á við þessa alvarlegu stöðu.“

Reiknað er með því að Ólafur Ragnar ræði við ráðherra í dag en fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, kom einnig til landsins í morgun. Heimferð hans frá Bandaríkjunum frestaðist um sólarhring og missti hann fyrir vikið af þingfundi í gær.

„Ég mun eiga samtöl og viðtöl í dag og vinna úr því þegar við erum komin til Bessastaða,“ segir Ólafur Ragnar.

Í fréttatímanum verður einnig fjallað um þá upplausn sem ríkir í ríkisstjórninni vegna Panama-lekans. Varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokks segir ríkisstjórnina nú ganga í gegnum alvarlegustu kreppuna á ferli sínum.

Uppfært klukkan 11.23:  Í fyrri útgáfu fréttarinnar var fullyrt að forsetinn myndi funda með formönnunum ríkisstjórnarflokkanna í dag. Það hefur verið leiðrétt.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×