Innlent

Yfir átta þúsund undirskriftir gegn Sigmundi á einum degi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð forsætisráðherra á Alþingi í gær.
Sigmundur Davíð forsætisráðherra á Alþingi í gær. Vísir/Anton Brink
Undirskriftarsöfnunin „Sigmundur Davíð, þér er hér með sagt upp störfum!“ tók kipp í gær þegar 8341 undirskriftir bættust við listann. Það sem af er degi hafa tæplega 900 skrifað undir listann og því hafa yfir níu þúsund manns skráð sig á listann síðastliðna tvo daga.

Ef sami gangur verður í undirskriftum í dag má búast við því að undirskriftasöfnunin nái þrjátíu þúsund undirskriftum áður en langt um líður. Íslendingar hafa lýst yfir óánægju með tengsl Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og konu hans við umræðu um skattaskjól og aflandsfélög en Sigmundur Davíð er prókúruhafi félagsins Wintris ehf. sem staðsett er á Tortóla-eyjum. Kona hans er skráður eigandi félagsins. 

Skjáskot af söfnuninni.
Aukninguna í undirskriftunum má rekja til þáttar Kastljóss og Reykjavík Media sem sýndur var á sunnudagskvöld. Eftir þáttinn jókst þátttaka í boðuð mótmæli á Austurvelli þar sem krafist var afsagnar ríkisstjórnarinnar. Mörg þúsund manns mættu og fyllti mannfjöldinn völlinn. 

Sigmundur Davíð fundaði með Bjarna Benediktssyni í morgun og hélt þvínæst rakleiðis á Bessastaði. Hér má fylgjast með hádegisfréttatíma Stöðvar 2 sem er í beinni frá forsetabústaðnum. 


Tengdar fréttir

Upplausn í ríkisstjórn innan beggja flokka

Ríkisstjórnarsamstarfið hangir á bláþræði. Megn óánægja ríkir innan bæði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks en ákvörðunar Bjarna Benediktssonar er beðið. Tugþúsundir Íslendinga mótmæltu ríkisstjórninni á Austurvelli í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×