Innlent

„Markmiðið er að skapa stöðugleika í stjórnmálunum“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sigurður og Bjarni í þinghúsinu í kvöld.
Sigurður og Bjarni í þinghúsinu í kvöld. vísir/ernir
„Markmiðið er að skapa stöðugleika í stjórnmálunum sem síðan mun smitast úr í samfélagið,“ sagði verðandi forsætsiráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, í tíufréttum Ríkissjónvarpsins.

Tveir ríkisráðsfundir verða á morgun en á þeim fyrri mun Sigmundur Davíð Gunnlaugsson biðjast lausnar fyrir sig og sína stjórn. Á þeim síðari mun stjórn Sigurðar Inga, stjórn sem varaformaður Vinstri grænna segir „reista á rústum spilltrar stjórnar sem féll fyrir þremur dögum“, taka við.

Aðspurður um hvort Sigurður teldi sig njóta nægilegs trausts í samfélaginu til að gegna embætti forsætisráðherra sagði hann að hann vonaðis til þess að traustið muni vaxa eftir því sem á líður.

„Það getur vel verið að atburðir undanfarinna daga hafi áhrif [á traust til mín] en það skiptir máli að ég hef alltaf farið rétt með allar staðreyndir. Við ætlum að fara inn í áframhaldandi samstarf á sama sáttmála og klára stóru verkefnin sem skipta þjóðina mestu máli,“ segir Sigurður.

Lilja Alfreðsdóttir verður ráðherra flokksins en ekki er enn ljóst við hvaða embætti hún tekur. Hún var tilnefnd af formanni flokksins, og fráfarandi forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

„Það er þannig í Framsóknarflokknum að formaður hans leggur til ráðherraskipanina og hún var samþykkt af flokknum,“ sagði Sigurður. Hann bætti við að Lilja væri mjög öflug og þingmenn flokksins þekki hana vel af öflugum störfum hennar úr ráðuneytinu. „Við treystum henni vel til allra verka.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×