Lífið

Sjö ára stúlka gaf páskaeggin sín þar sem hún fékk of mörg

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Hún fékk páskaegg frá afa sínum, vann annað í bingó og svo fékk hún eitt egg frá okkur. Henni fannst alger óþarfi að fá svona mörg egg,“ segir Elín Ósk Kragh Sigurjónsdóttir í samtali við Vísi.

Þar á hún við dóttur sína, Alexöndru Ósk, sem fannst hún fá of mörg páskaegg. Alexandra, sem er sjö ára, spurði móður sína hvort það væri ekki hægt að gefa einhverjum eggin sem fengi engin egg.

„Hún er mjög nægjusöm og hefur alltaf verið. Hún hefur til að mynda alltaf passað sig á að gefa það dót sem hún er hætt að leika sér með og þá helst til einhvers sem vantar dót.“

Elín auglýsti eggin í Facebook-hópnum Gefins, allt gefins! og fólk falaðist eftir þeim. „Í upphafi sagðist ég vera með tvö páskaegg en það voru þrír sem vildu fá. Svo við gáfum öll og við mæðgur enduðum á því að deila eggi.“

„Það er nauðsynlegt að fólk horfi aðeins í kringum sig og passi sig á að vera gott við hvert annað,“ segir Elín að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×