Innlent

Ásmundur segir leigubílstjóra þarfasta þjóninn og vill loka Skutlarahópnum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Vísir/Vilhelm

„Eigum við að horfa upp á slíka svarta starfsemi fyrir framan nefið á okkur? Er ekki nóg að við ætlum að fylla hér allar verslanir af brennivíni heldur er boðið upp á heimsendingarþjónustu hér allar helgar heim til fólks, er það ekki orðið of mikið af því góða,“ sagði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag.

Tilefni orða hans var Facebook-síðan Skutlarar þar sem einstaklingar bjóða fólki að keyra það gegn gjaldi. Hann sagði ótækt að slík starfsemi fái að þrífast hér á landi.

„Svo lengi sem ég man hafa leigubílstjórar verið þarfasti þjónn þjóðarinnar. Þeir eru góðkunningjar almennings og í mínum huga hluti góðra almenningssamgangna í landinu. Nú er sótt að þeim með ólöglegri svartri starfsemi í landinu,“ sagði Ásmundur. Meðal annars séu umræddir skutlarar að selja áfengi.

„Þegar mér var boðið að skoða þessa síðu um daginn þá mátti lesa þar auglýsingu: Er með tólf kalda í bílnum og síðan fylgdi símanúmer og staðsetning á bílnum.“

Hann skoraði því á lögregluna að koma í veg fyrir slíka starsfemi. „Ég skora hér með á lögregluna að gera eitthvað í þessu máli. Ég veit að hún er fáliðuð en þetta er mál sem þarf að taka á.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.