Innlent

Mengunarský yfir höfuðborgarsvæðinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Mengunarskýið er sýnilegt Reykvíkingum ef þeir horfa í átt til Mosfellsbæjar en liggur yfir öllu höfuðborgarsvæðinu.
Mengunarskýið er sýnilegt Reykvíkingum ef þeir horfa í átt til Mosfellsbæjar en liggur yfir öllu höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Anton Brink
„Þetta er fyrst og fremst vegna útblásturs frá bílum,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftmengun, um mengunarský sem liggur nú yfir höfuðborgarsvæðinu.

Þeir sem staddir eru í Reykjavík sjá þetta ský greinilega ef þeir horfa í átt til Mosfellsbæjar en þeir sem eru í Mosfellsbæ sjá skýið ekki svo greinilega hjá sér, heldur þurfa þeir að horfa í átt til Reykjavíkur til að sjá það.

Mengunarskýið er vegna útblásturs frá bílum. Vísir/Anton Brink
Þorsteinn segir þetta stafa af sjónblekkingum sem þessi loftmengun skapar. „Reykvíkingum finnst hún vera yfir Mosfellsbæ en fólk í Mosfellsbæ horfir til Reykjavíkur og hugsar með sér að það sé rosaleg mengun í Reykjavík. Maður þarf að horfa ákveðna marga kílómetra í gegnum þetta til að sjá þetta,“ segir Þorsteinn.

Hann segir skýið liggja frá Reykjavík og til Mosfellsbæjar vegna vindáttarinnar en þessar aðstæður skapast í mjög hægum vindi. Nú er til að mynda suðvestan átt og vindur undir tveimur metrum á sekúndu.

Þorsteinn segir mengunargildin ekki há í dag en þetta ástand sé ekki skaðlegt heilsunni ef það varir svona í einn dag. Þeir sem eru með öndunarfærasjúkdóma gætu hins vegar fundið fyrir þessu. Hann segir loftmengunina yfir höfuðborgarsvæðinu í dag ekki í líkingu við þá sem er að finna á stærri svæðum úti í heimi þar sem er mikil bílaumferð. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.